Enski boltinn

Man City við það að kaupa varnarmann Bournemouth

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nathan Aké mun að öllum líkindum leika í ljósbláu á næstu leiktíð. 
Nathan Aké mun að öllum líkindum leika í ljósbláu á næstu leiktíð.  Adam Davy/Getty Images

Pep Guardiola – þjálfari enska knattspyrnuliðsins Manchester City – stefnir á að bæta varnarlínu sína þegar tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni lýkur. Pep hefur fengið nóg af slökum frammistöðum þeirra John Stones og Nicolas Otamendi.

Hann ætlar sér að eyða pening í miðvörð eða miðverði þegar félagaskiptaglugginn opnar á ný og virðist sem Nathan Aké, varnarmaður Bournemouth, sé fyrstur á blaði. Allavega ef eitthvað er að marka heimildir The Guardian.

Aké mun kosta City „litlar“ 35 milljónir punda en Bournemouth er svo gott sem fallið. Það virðist ekki hafa áhrif á áhuga City að þessi hollenski varnarmaður hefur verið hluti af varnarlínu sem hefur fengið á sig 64 mörk til þessa á leiktíðinni.

Aðeins Norwich City og Aston Villa hafa fengið á sig fleiri mörk í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Stefnir í að öll þrjú þeirra falli um deild en Norwich er nú þegar fallið.

Athygli vekur að Aké er örvfættur en Pep vill helst spila með réttfættan miðvörð hægra megin í vörninni og örvfættan vinstra megin. Þar hefur Aymeric Laporte verið undanfarin misseri en hann hefur verið töluvert frá vegna meiðsla. Hvort City muni leika með tvo örvfætta miðverði á næstu leiktíð eða ef til vill spila með þriggja manna varnarlínu á eftir að koma í ljós þegar fram líða stundir.

Chelsea hefur einnig áhuga á að fá hinn 25 ára gamla Aké til sín en félagið seldi hann til Bournemouth á 20 milljónir punda sumarið 2017. Þá er talið að John Stones gæti farið til Arsenal þar sem Mikael Arteta er við stjórnvölin en hann var aðstoðarþjálfari Pep hjá City áður en hann tók við Lundúnaliðinu.

Aké hefur leikið 108 leiki fyrir Bornemouth síðan hann gekk í raðir liðsins og þá hefur hann leikið 13 A-landsleiki fyrir Holland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×