Enski boltinn

„Til þess að taka næsta skref þarf Manchester United að skipta um mark­vörð“

Anton Ingi Leifsson skrifar
David de Gea er markvörður Manchester United.
David de Gea er markvörður Manchester United. vísir/getty

Chris Sutton, fyrrum knattspyrnumaður og nú enskur spekingur hjá BBC, segir að ef Manchester United ætlar að taka næsta skref og berjast um titla, þá þurfi þeir að skipta út markverðinum David de Gea.

De Gea var ekki upp á sitt besta er Manchester United tapaði 3-1 fyrir Chelsea á Wembley í undanúrslitum enska bikarsins. Margir setja spurningarmerki við Spánverjann í tveimur af þremur mörkum Chelsea.

„Hann hefur áður borið liðið á herðum sér. Hann hefur verið frábær en á þessari leiktíð og þeirri síðustu hefur hann gert mörg stór mistök,“ sagði Sutton.

„Ég held að við getum allir verið sammála um að United hefur tekið skref fram á við undir stjórn Solskjær á þessu tímabili en ef þeir vilja berjast um titilinn, eins og sumir vilja meina að þeir geri, þá þarftu að hafa traustan markvörð og það hefur Ole Gunnar ekki í David de Gea.“

„Þannig er það bara. Ef hann ætlar að vera hjá félagi eins og Manchester United þá þarf hann að miskunnarlaus. Manchester United er með magnaða sögu af bikurum en á þessum tímapunkti eru þeir langt á eftir Liverpool og Manchester City. Til þess að taka næsta skref þarf Manchester United að skipta um markvörð,“ sagði Sutton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×