Enski boltinn

Leikmennirnir fjórir sem Pep Guardiola er sagður vera með augun á

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Alaba hefur verið lengi hiá Bayern München og spilaði með liðinu þegar Pep Guardiola var þar. Nú vill Pep fá hann til Manchester City.
David Alaba hefur verið lengi hiá Bayern München og spilaði með liðinu þegar Pep Guardiola var þar. Nú vill Pep fá hann til Manchester City. EPA-EFE/ALEXANDER HASSENSTEIN

Liverpool vann yfirburðasigur í ensku úrvalsdeildinni í ár eftir að Manchester City hafði unnið deildina tvö ár í röð.

Eftir að Alþjóða íþróttadómstóllinn ógildi bann Manchester City frá Evrópukeppnunum þá hætta menn að pæla í hvaða leikmenn haldi áfram hjá félaginu. Guardiola og bestu leikmenn liðsins eru nú klárir í slaginn og þeir munu fá hjálp.

Daily Mail slær því upp að Pep Guardiola sé með augun á fjórum nýjum leikmönnum og hann fær líka fullt af pening frá eigendunum til að kaupa þá í sumar.

Leikmennirnir sem eru nú sterklega orðaðir við Manchester City liðið eru varnarmennirnir David Alaba (Bayern) og Kalidou Koulibaly (Napoli), vængmaðurinn Ferran Torres (Valencia) og sóknarmaðurinn Lautaro Martinez (Inter).

Það er ljóst að Guardiola þarf að styrkja varnarleikinn en það eru einkum mistök í honum sem hafa þýtt að City liðið hefur tapað níu deildarleikjum á leiktíðinni. Það væri því mjög sterkt að ná í þá David Alaba og Kalidou Koulibaly.

David Alaba spilaði fyrir Guardiola hjá Bayern og getur spilað margar stöður á vellinum. Hann hefur spilað sem miðvörður á þessu tímabili en getur einnig spilað á miðjunni og sem bakvörður.

Kalidou Koulibaly er einn besti miðvörður heims og hefur einnig verið orðaður við bæði Liverpool og Manchester United.

Hinn eldfljóti Ferran Torres hefur einnig verið orðaður við Manchester United en samningur hans er að renna út eftir ár og það má búast við því að Valencia reyni að fá eitthvað fyrir hann i sumar.

Barcelona er eitt af þeim félögum sem hefur mikinn áhuga á argentínska framherjanum Lautaro Martinez en hann er aðeins 22 ára gamall. Börsungar eiga ekki mikinn pening og hafa verið að reyna að búa til skiptidíl. Inter gæti því freistast til að selja hann frekar til Manchester City.

Með góðum liðstyrk er líklegt að Manchester City komist aftur í bílstjórasætið í baráttunni um enska meistaratitilinn því ekki lítur út fyrir að Liverpool ætli að eyða miklu í nýja leikmenn í sumar.

Það er líka almennt talið hjálpa Manchester City, með sína svakalegu breidd, að það verða áfram leyfðar fimm skiptingar á næstu leiktíð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.