Innlent

Segir vegabætur með styttingu leiðar valda auknum útblæstri

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hér er sýnd ein af nokkrum tillögum Vegagerðarinnar um þverun Vatnsfjarðar á móts við Flókalund. Skipulagsstofnun leggst eindregið gegn þverun fjarðarins og vill halda óbreyttri veglínu um fjarðarbotninn.
Hér er sýnd ein af nokkrum tillögum Vegagerðarinnar um þverun Vatnsfjarðar á móts við Flókalund. Skipulagsstofnun leggst eindregið gegn þverun fjarðarins og vill halda óbreyttri veglínu um fjarðarbotninn. Grafík/Vegagerðin.

Skipulagsstofnun hafnar þeim rökum Vegagerðarinnar í umhverfismati vegna Dynjandisheiðar að stytting leiðar með þverun Vatnsfjarðar muni draga úr útblæstri. Stofnunin telur þvert á móti að samgöngubætur muni fjölga ferðum og þar með leiða til aukins útblásturs.

Þetta kemur fram í kafla þar sem Skipulagsstofnun svarar þeirri niðurstöðu Vegagerðarinnar að veglínur þvert yfir fjörðinn komi til með að hafa jákvæð áhrif á losun CO2 þar sem veglínurnar stytti núverandi vegalengdir.

„Að mati Skipulagsstofnunar ber að horfa til þess að framkvæmdin felur í sér samgöngubætur sem eru líklegar til að fjölga ferðum. Í matsskýrslu eru ekki færð rök fyrir því að minni útblástur vegna styttingar vegalengdar um 3-4 km sé líkleg til að vega upp á móti auknum útblæstri vegna fjölgunar ferða. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin sem slík sé heilt yfir líkleg til að hafa neikvæð áhrif á útblástur,“ segir í áliti Skipulagsstofnunar. 

Undir það rita Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri og Egill Þórarinsson, sviðsstjóri umhverfismats.

Úr Vatnsfirði. Flókalundur til vinstri.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Stofnunin, sem eindregið leggst gegn þverun Vatnsfjarðar í áliti sínu, hafnar einnig þeim sjónarmiðum Vegagerðarinnar að færsla vegarins muni hafa veruleg jákvæð áhrif á þá sem dvelja í Vatnsfirði. Þar segir Vegagerðin að kyrrð í firðinum aukist sem gæti aukið gildi hans og haft verulega jákvæð áhrif fyrir útivist og ferðamennsku.

Áhugi á fuglaskoðun á svæðinu gæti aukist með aukinni kyrrð vegna minni umferðar um fjarðarbotninn.

Ferða- og áhugafólki um fuglaskoðun gæti þótt það eftirsóknarvert. Það sama gildi um berjatínslu og veiðisvæði sem koma til með að liggja innan þverunar.

„Að mati Skipulagsstofnunar munu áhrif af vegaframkvæmdum um friðlandið í Vatnsfirði verða neikvæð samkvæmt öllum valkostum á ferðamennsku og útivist,“ segir stofnunin og telur fjarðarþverun hafa veruleg neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins.

„Slík breyting, bæði á ásýnd og umferð, mun ekki verða vegin upp með aukinni friðsæld innan þverunar. Ekki er getið um sjónræn áhrif frá útivistarsvæðum innan þverunar, né tiltekið að öll sú afþreying og útivist sem getið er um að hægt verði að stunda innan þverunar sé til staðar þar í dag.

Jafnframt verða meiri áhrif á einstaka mikilvæga staði, svo sem Hellulaug og ósa Pennu. Jákvæð áhrif af þverun á útivist innan botns Vatnsfjarðar eru því ofmetin,“ segir Skipulagsstofnun.

Þrívíddarmyndir Vegagerðarinnar af mismunandi tillögum um veglínur má sjá hér.


Tengdar fréttir

Svona gæti nýr vegur um Dynjandisheiði litið út

Vegagerðin hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði. Vegagerð við fossinn Dynjanda og um friðlandið í Vatnsfirði eru taldir viðkvæmustu þættir verksins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.