Innlent

Vara við á­hrifum á um­hverfi vegna nýs vegar um Dynjandis­heiði

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Til stendur að leggja heilsársveg um Dynjandisheiði.
Til stendur að leggja heilsársveg um Dynjandisheiði. Vísir/Hafsteinn

Skipulagsstofnun mælir ekki með því að brú verði reist yfir Vatnsfjörð en til stendur að hefja þar vegaframkvæmdir sem hluta af því að leggja heilsársveg um Dynjandisheiði. Jákvæð áhrif þess að stytta Vestfjarðarveg með þverun Vatnsfjarðar væru óveruleg þegar horft er til þeirra samgöngubótar sem framkvæmdin í heild sinni felur í sér annars vegar og gildis þess svæðis sem framkvæmdin mun hafa á.

Skipulagsstofnun gaf í dag út álit um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðarvegar um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðarvegi á Dynjandisheiði. Í matsskýrslu Vegagerðarinnar er framkvæmdunum skipt í þrjá áfanga og lagt mat á umhverfisáhrif þrettán valkosta um veglínur á þessum þremur áföngum.

Skipulagsstofnun telur ljóst að heilsársvegur um Dynjandisheiði komi til með að fela í sér verulegar samgöngubætur fyrir fjölda fólks á stóru svæði og er jafnframt sammála Vegagerðinni um að áhrif áfanganna á samfélag, landnotkun og mannvirki séu talsvert jákvæð, óháð leiðarvali.

Þá sé, með tilliti til umhverfis- og verndunarsjónarmiða, eini valkosturinn því að fylgja núverandi veginn. Sá kafli Vestfjarðarvegar sem liggur um friðlandið í Vatnsfirði hafi þá sérstöðu að vera þegar með bundnu slitlagi ásamt því að vera ekki sérstakur farartálmi að vetri. Jákvæð áhrif hvað varði bættar samgöngur á þessum vegarkafla felist því fyrst og fremst í betri vegi upp á Dynjandisheiði.

Fram kemur í álitinu að önnur helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar felist í neikvæðum áhrifum á friðlýst svæði Dynjanda en á þeim vegarkafla eru lagðar fram tvær tillögur um veglínur til samanburðar sem að mati Skipulagsstofnunar hafa báðar talsvert neikvæð áhrif á verndarsvæðið.

Skipulagsstofnun tekur því ekki afstöðu til þess hvor kosturinn eigi að verða fyrir valinu en bendir á að Umhverfisstofnun telur annan valkostanna ekki samræmast verndarskilmálum friðlýsts svæðis við Dynjanda.

Þá muni framkvæmdirnar jafnframt valda umtalsverðu raski á náttúrulegri strandlengju þriggja innfjarða Suðurfjarða Arnarfjarðar sem mun hafa áhrif á lífríki fjöru þar sem finna má vistgerðir með hátt verndargildi og mikilvæg fæðuöflunarsvæði fugla.

Vegagerðin hefur lagt fram fjölda mótvægisaðgerða vegna áhrifa á umhverfisþætti sem fjallað er um í umhverfismati hennar. Skipulagsstofnun metur það þó svo að þær þurfi að útfæra nánar og skilgreina með skýrari hætti ábyrgð með framkvæmd og eftirfylgni hennar.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.