Enski boltinn

Stefnt á að leyfa áfram fimm skiptingar á næsta tímabili

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær er einn þriggja þjálfara ensku úrvalsdeildarinnar sem fullnýtir alltaf fimm skiptingar.
Ole Gunnar Solskjær er einn þriggja þjálfara ensku úrvalsdeildarinnar sem fullnýtir alltaf fimm skiptingar. Joe Giddens/Getty Images

Í kjölfar kórónufaraldursins var ákveðið að leyfa knattspyrnuþjálfurum að skipta inn á fimm varamönnum í leik hverjum. Til að forðast óþarfa tafir mátti þó aðeins gera skiptingarnar í þremur stoppum. Þannig myndu engar óþarfa tafir verða á leikjum.

Matt Slater á The Athletic hefur nú greint frá því að IFAB, alþjóðanefnd fótboltalaga, hafi ákveðið að leyfa fimm skiptingar þegar fótboltinn hófst að nýju. Var það gert til að koma í veg fyrir óþarfa meiðsli leikmanna. Nú virðist sem nefndin muni áfram leyfa fimm skiptingar hjá hvoru liði á næsta tímabili.

Meirihluti í hverri deild fyrir sig réð þó hvort deildirnar myndu taka upp fimm skiptingar eður ei. Á Englandi voru  Aston Villa, Bournemouth, Sheffield United og West Ham United á móti því að fjölga skiptingum úr þremur í fimm. Hvort þau hafi verið á móti því að fjölga vara-mönnum úr sjö í níu kemur ekki fram en það var samt sem áður niðurstaðan.

Roy Hodgson, þjálfari Crystal Palace, gaf það nýverið út að þessi fjölgun skiptinga henti stærri liðum deildarinnar betur þar sem þau eru með breiðari leikmannahópa. Þær áhyggjur virðast þó ekki á rökum reistar en aðeins þrjú lið hafa fullnýtt skiptingar sínar í öllum leikjum síðan deildin hófst að nýju.

Það eru Manchester United, Liverpool og Brighton & Hove Albion. 

Mun nefndin funda til að ákveða hvort reglan verði aðeins á næsta tímabili eða til frambúðar. Þá mun hún fara yfir rangstöðuregluna en eftir að myndbandsdómgæsla kom til sögunnar er ljóst að sóknarmenn eru hættir að njóta vafans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×