Enski boltinn

Veltur á Manchester City hvort Liverpool verði meistari í kvöld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp getur ekkert gert nema vonað að Pep og hans menn vinni leik sinn í kvöld.
Klopp getur ekkert gert nema vonað að Pep og hans menn vinni leik sinn í kvöld. Peter Byrne/Getty Images

Þrír leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Sá síðasti þeirra er leikur Chelsea og ríkjandi Englandsmeistara Manchester City sem fram fer á Brúnni í Lundúnum. Fari svo að City vinni ekki leikinn þá eru Liverpool orðið Englandsmeistari í fyrsta sinn í 30 ár eða frá árinu 1990.

Eftir markalaust jafntefli gegn Everton í fyrsta leik liðsins eftir að leikar hófust að nýju í ensku úrvalsdeildinni þá mætti Liverpool-liðið klárt í slaginn er Crystal Palace mætti á tóman Anfield í gær. Palace – sem hefur átt góðu gengi að fagna á leiktíðinni – átti aldrei möguleika og vann Liverpool leikinn örugglega 4-0.

Þar með er liðið komið 23 stiga forystu þegar Man City getur aðeins nælt sér í 24 stig til viðbótar. Þar með er ljóst að allt annað en sigur City-manna í kvöld þýðir að Englandsmeistaratitillinn er á leiðinni í Bítlaborgina. Leikur liðanna á Brúnni á síðustu leiktíð endaði með 2-0 sigri Chelsea.

Verða eflaust fjölmargir stuðningsmenn Liverpool límdir við skjáinn í kvöld í þeirri von um að sá leikur verði leikinn eftir.

City hefur átt góðu gengi að fagna eftir að deildin fór aftur af stað og hafa unnið báða sína leiki án þess að fá á sig mark. Hins vegar gætu meiðsli framherjans Sergio Agüero sett strik í reikninginn. Chelsea er að sama skapi í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu en liðið er í 4. sæti með tveggja stiga forystu á Manchester United og Wolverhampton Wanderers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×