Enski boltinn

Sergio Agüero frá út tímabilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Argentínumaðurinn mun ekki spila aftur fyrr en á næstu leiktíð.
Argentínumaðurinn mun ekki spila aftur fyrr en á næstu leiktíð. EPA-EFE/Martin Rickett

Manchester City lagði Burnley að velli 5-0 á Etihad-vellinum í Manchester í fyrradag. City varð þó fyrir áfalli í leiknum en argentíski markahrókurinn Sergio Agüero fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 2-0.

Nú hefur komið í ljós að hinn 32 ára gamli Agüero – sem hefur oftar en ekki verið í vandræðum með meiðsli – verður frá út tímabilið samkvæmt frétt BBC.

Agüero hefur sjálfur tjáð sigum málið en hann er meiddur á vinstra hné. Í viðtali eftir leikinn sagði Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, að framherjinn hefði átt í vandræðum með hnéið undanfarin mánuð.

Agüero heldur til Barcelona þar sem hann mun undirgangast frekari læknismeðferð og meðhöndlun. Sóknarmaðurinn knái hefur byrjað 18 deildarleiki fyrir City á leiktíðinni og skorað í þeim 16 mörk. City gekk ágætlega án hans gegn Burnley en spurning er hvernig liðinu mun ganga gegn sterkari mótherjum.

City-liðið hefur farið frábærlega af stað eftir að enska úrvalsdeildin hóf göngu sína á ný og er liðið með sex stig af sex möguleikum úr síðustu tveimur leikjum. Þá er markatala liðsins 8-0 en Ederson, markvörður City, fékk síðast á sig skot í janúar.

Man City er í öðru sæti deildarinnar með 63 stig, tuttugu stigum á eftir toppliði Liverpool þegar átta umferðir eru eftir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×