Enski boltinn

Ótrúlegir yfirburðir City: Ederson ekki fengið á sig skot síðan í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ederson hefur verið hálfgerður áhorfandi í síðustu leikjum Manchester City liðsins enda hefur ekkert verið að gera hjá honum.
Ederson hefur verið hálfgerður áhorfandi í síðustu leikjum Manchester City liðsins enda hefur ekkert verið að gera hjá honum. Getty/Matt McNulty

Manchester City hefur leikið sér af andstæðingum sínum í fyrstu tveimur leikjum sínum eftir kórónuveirufaraldurinn og yfirburðirnir eru slíkir að það er hreinlega ekkert að gera hjá einum leikmanni liðsins.

Brasilíska markverðinum Ederson hlýtur að hafa leiðst í þessum tveimur leikjum á móti Arsenal og Burnley því slíkir voru yfirburðir Manchester City liðsins.

Það var ekki aðeins sú staðreynd að City menn skoruðu átta mörk í leikjunum tveimur og sköpuðu sér fjölda annarra marktækifæra heldur einnig það að mótherjarnir gerðu ekkert á móti.

Ederson fékk ekki á sig eitt skot þessar 180 mínútur. Á móti áttu leikmenn Manchester City 36 skot þar af 19 þeirra á markið.

Leikirnir fóru vissulega báðir fram á heimavelli Manchester City en þaðan koma fá lið með eitthvað til baka.

Heimaleikirnir hjá Manchester City hafa líka ekki reynt mikið á Ederson að undanförnu. Í raun hefur hann ekki fengið á sig skot á heimavelli síðan í janúar síðastliðnum.

Leikmenn Burnley, Arsenal og West Ham náðu ekki skoti á mark í þessum þremur síðustu leikjum og alls aðeins sex skotum samanlagt á 270 mínútum.

Sá síðasti til að ógna Ederson eitthvað var leikmaður hjá Crystal Palace í 2-2 jafntefli liðanna 18. janúar síðastliðinn. Síðasta skotið á mark var jöfnunarmark Palace í leiknum en það kom á lokamínútunni. Það skot kom reyndar frá Fernandinho, leikmanni Manchester City, og var því sjálfsmark.

Crystal Palace náði reyndar fjórum skotum á marki í leiknum og sá síðasti úr þeirra liði til að láta reyna á Ederson var Wilfried Zaha á 59. mínútu. Ederson varði það skot auðveldlega. Síðan er liðin 301 mínúta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×