Um­fjöllun: Fram - ÍR 3-1 | Safa­mýra­piltar lentu undir en komust á­fram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fram er komið áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins.
Fram er komið áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins. Vísir/HAG

Fram er komið í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins eftir 3-1 sigur á 2. deildarliði ÍR. Þrjú af fjórum mörkum leiksins komu í fyrri hálfleik en gestirnir úr Breiðholti komust yfir í leiknum.

Ef horft var á fyrstu tuttugu mínútur leiksins var ekki búist við miklu fjöri. Bæði lið áttu varla skot í átt að marki og bæði lið virtust varla með lífsmarki. Það átti þó eftir að færast fjör í leikinn og rúmlega það.

Það voru gestirnir úr Breiðholti sem komust yfir á 22. mínútu. Þeir áttu flott samspil upp vinstri kantinn og Andri Már Ágústsson var mættur á nærstöngina eins og alvöru framherji. Vel að verki staðið.

Adam var þó ekki lengi í paradís því rúmri mínútu síðar var allt jafnt. Aron Snær Ingason skoraði þá eftir laglega sendingu Þóris Guðjónssonar sem spilaði á miðsvæðinu í dag og á 36. mínútu kom Aron Kári Aðalsteinsson Frömurum í 2-1. Þannig stóðu leikar í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var í raun steindauður. Hann einkenndist af mörgum skiptingum en liðin sköpuðu sér ekki mörg færi. Fram gerði þriðja mark sitt í uppbótatíma er Magnús Þórðarson komst inn í sendingu til baka á Kristófer markvörð.

Af hverju vann Fram?

Eru einfaldlega með betra fótboltalið en ÍR. Gerðu út um leikinn á sínum gæðum en þeir þurftu létt rothögg, sem var að ÍR komst yfir, til þess að komast í gang í leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Þórir Guðjónsson var mikið í boltanum og Aron Snær Ingason var frískur í fremstu víglínu og passaði boltann vel. Aron Kári Aðalsteinsson var fastur fyrir í vörninni og spilaði boltanum vel frá sér. Það var enginn skínandi góður í Fram-liðinu heldur margir sem áttu ágætis dag. Hjá ÍR-ingum gerði Gunnar Óli Björgvinsson vel á vinstri vængnum þegar hann komst í boltann en hann og Reynir Haraldsson tengdu vel á vinstri vængnum.

Hvað gekk illa?

ÍR gekk illa að skapa sér færi. Færið sem þeir fengu í fyrri hálfleik var nánast það eina sem þeir gerðu í fyrri hálfleik og ekki var mikið uppi á teningnum hjá ungu liði ÍR í síðari hálfleik en Fram þétti raðirnar.

Hvað gerist næst?

Framarar eru komnir í 16-liða úrslit og færast skrefi nær öskubuskuævintýri í bikarnum en dregið verður á föstudaginn. Bæði lið bíða krefjandi verkefni í deildarkeppnum um helgina; ÍR mætir Fjarðabyggð á útivelli á meðan Fram spilar gegn Magna á Grenivík.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira