Íslenski boltinn

Sprettur í uppbótartíma gerði út af við Tryggva Hrafn: „Ætla að vona að Alma sé að hlusta“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tryggvi Hrafn í leiknum gegn FH um helgina.
Tryggvi Hrafn í leiknum gegn FH um helgina. vísir/hag

Guðmundur Benediktsson, þáttarstjórnandi Pepsi Max-stúkunnar, birti skemmtilegt myndband af Tryggva Hrafni Haraldssyni undir lok leiks FH og ÍA á sunnudaginn.

ÍA var 2-1 undir þegar komið var fram í uppbótartíma og Hafnfirðingar fengu skyndisókn. Tryggvi spilar vanalega sem fremsti maður ÍA en hann tók rosalegan sprett yfir allan völlinn til þess að bjarga því að FH gerði út um leikinn.

Skagamenn unnu svo boltann og sóttu hratt. Tankurinn hjá Tryggva var þó næstum því tómur og kölluðu strákarnir í settinu þetta „Covid-myndband“.

„Þetta hefði getað rúllað aðeins lengra. Hann komst ekki inn í teiginn,“ sagði Sigurvin Ólafsson.

„Ég ætla að vona að Alma sé að hlusta,“ grínaðist Tómas Ingi Tómasson og átti þar við Ölmu Möller, landlækni, sem stóð í ströngu á tímum kórónuveirunnar en hún var hluti af þríeykinu.

„Það sem mér þykir flott í þessu myndbandi er að Tryggvi hleypur alla leiðina til baka. Hann verður seint sakaður um að vera duglegasti leikmaður Skagans. Að taka þennan sprett alla leið til að bjarga liðinu sínu finnst mér frábært,“ bætti Tómas Ingi við.

Klippa: Pepsi Max-stúkan - Sprettur Tryggva



Fleiri fréttir

Sjá meira


×