Erlent

Bol­ton fær að gefa út bókina um tíma sinn með Trump

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna hyggst gefa út bók um tíma sinn við hlið Trump í næstu viku.
John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna hyggst gefa út bók um tíma sinn við hlið Trump í næstu viku. Getty/Melissa Sue Gerrits

Alríkisdómari skar úr um það í dag að John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, fái leyfi til að gefa út bók sem hann hefur skrifað. Til stendur að gefa út bókina seinna í næstu viku en Bolton hefur verið sakaður af Hvíta húsinu um að hún innihaldi leynilegar upplýsingar.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna höfðaði mál gegn Bolton fyrr í vikunni vegna bókarinnar. Ráðuneytið hélt því fram að Bolton hafi brotið þagnarsamkomulag við ríkisstjórnina með því að skrifa bókina.

Ákvörðun Royce Lamberth, alríkisdómara, er stór sigur fyrir Bolton og var deilt um hvort skrif bókarinnar væri brot á fyrsta ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna og brot á öryggi ríkisins. Dómarinn gerði það þó ljóst að hann hefði áhyggjur af því að ákvörðun Bolton um að skrifa bókina hefði getað stefnt þjóðaröryggi Bandaríkjanna í hættu með því að taka einhliða ákvörðun um útgáfu bókarinnar án þess að ræða það við Hvíta húsið.

Hvíta húsið fór fram á að útgáfa bókarinnar yrði stöðvuð þar til veitt væri skriflegt leyfi fyrir útgáfu hennar. Þá var þess krafist að öll eintök sem þegar höfðu verið afhent utanaðkomandi aðilum yrðu sótt og að allur hagnaður Bolton vegna bókarinnar færi í sérstakan sjóð um tíma.

Bolton sjálfur hefur þvertekið fyrir að bókin innihaldi leynilegar upplýsingar. Þegar hefur komið fram að í bókinni haldi Bolton því fram að nánast allar ákvarðanir Trump hafi tekið mið af endurkjöri hans en ekki hag Bandaríkjanna. Hann neitaði þó að ræða við þingmenn þegar leitast var eftir því í tengslum við embættisákæruna gegn Trump.

Stuttu eftir að úrskurður dómarans var birtur tísti Trump að Bolton hafi brotið lög með því að birta leynilegar upplýsingar.


Tengdar fréttir

Segir að allt sem Trump geri snúist um endurkjör

John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta segir að fyrrverandi yfirmaður sinn sé „ótrúlega fáfróður“ og hafi hvorki getu né færni til þess að sinna starfi forsetans. Bolton segir að eina leiðarljós Trump í ákvörðunum sé möguleikinn á endurkjöri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×