Enski boltinn

Þrautseigja Rashford skilaði óvænt tilætluðum árangri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Magnaður Marcus Rashford sannfærði ríkisstjórnina um að halda áfram að fæða bágstödd börn í Bretlandi.
Magnaður Marcus Rashford sannfærði ríkisstjórnina um að halda áfram að fæða bágstödd börn í Bretlandi. EPA-EFE/PETER POWELL

Svo virðist sem Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi óvænt skipt um skoðun er varðar matarmiða handa börnum í Bretlandi. Marcus Rashford og sá þrýstingur sem hann hefur sett á stjórnvöld virðist spila stóra rullu í ákvörðun forsætisráðherrans.

Fyrr í dag greindum við frá því að Rashford hefði safnað yfir 20 milljónum punda - þremur og hálfum milljarði króna til aðstoðar þeim sem minna mega sín. Þá hvatti hann stjórnvöld til að halda áfram að útdeila matarmiðum til þeirra sem þurfa á því að halda.

Boris hefur nú óvænt skipt um skoðun og kemur fram í frétt Independent að ríkisstjórnin muni setja 120 milljónir punda í verkefnið.

Rashford tjáði sig um málið í færslu á Twitter-síðu sinni.

„Ég veit ekki hvað skal segja. Sjáið hvað við getum áorkað þegar við stöndum saman. ÞETTA er England árið 2020.“

Talið er að alls muni næstum ein og hálf milljón barna fá mat í gegnum aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar. Þegar skólahald hefst aftur í haust mun aðgerðinni vera formlega lokið en með þessu er reynt að koma til móts við þá foreldra sem neyðast til að treysta á skóla barna sinna til að gefa þeim að borða yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×