Enski boltinn

Rashford neitar að gefast upp og ætlar að halda áfram að þrýsta á ríkisstjórnina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rashford hefur verið frábær innan vallar sem utan á leiktíðinni.
Rashford hefur verið frábær innan vallar sem utan á leiktíðinni. EPA-EFE/PETER POWELL

Marcus Rashford, framherji Manchester United og enska landsliðsins, skrifaði tilfinningaþrunginn pistil sem var birtur á The Guardian. Þar biðlar hann til stjórnvalda að endurskoða afstöðu sína varðandi matarmiða fyrir ungmenni.

Rashford hefur látið til sín taka síðan kórónufaraldurinn hefur skollið á en í samstarfi við góðgerðasamtökunum FareShare þá hefur Rashford safnað meira en 20 milljónum punda sem fara í að fæða fjölskyldur sem hafa minna á milli handanna en gengur og gerist.

Samsvarar sú upphæð tæpum þremur og hálfum milljarði íslenskra króna.

Rashford hefur ákveðið að nýta rödd sína og stöðu í samfélaginu til að þrýsta á ríkisstjórn landsins en þessi magnaði sóknarmaður nýtti sér áðurnefna matarmiða sjálfur þegar hann var yngri.

„Saga mín er alltof kunnugleg fyrir margar fjölskyldur á Englandi. Móðir mín vann fulla vinnu en á lágmarkslaunum, hún gat sett mat á borðið en það var ekki nóg. Kerfið er ekki byggt til þess að fjölskyldur eins og mínar nái árangri. Það skipti engu máli hversu mikið móðir mín vann,“ sagði Rashford til að mynda í pistli sínum.

„Getum við ekki öll verið sammála um að ekkert barn á að fara svangt að sofa,“ spurði Rashford að lokum. Svo virðist sem Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sé ekki sammála knattspyrnumanninum unga en Johnson hefur sagt að matarmiðarnir verði teknir úr umferð í sumar.

Rashford hefur fengið stuðning úr öllum áttum en borgarstjóri London segir til að mynda að England verði að gera betur til að styðja við bakið á þeim sem þurfa helst á því að halda. Þá hefur Gary Lineker, fyrrum framherji enska landsliðsins, stutt dyggilega við bakið á hinum 22 ára gamla Rashford.

Rashford, sem hefur jafnað sig af bakmeiðslum sem hann hlaut fyrr á tímabilinu, ætlar þó ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Fyrir bakmeiðslin var Rashford að eiga frábært tímabil en hann hafði skorað 14 mörk í 22 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Reikna má með því að Rashford verði í byrjunarliði Manchester United þann 19. júní þegar lið hans mætir Tottenham Hotspur í fyrsta leik eftir að kórónufaraldurinn skall á. Það er hins vegar ljóst að Rashford verður að berjast á tveimur vígstöðum út tímabilið, innan vallar sem utan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×