Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, hópur af leikmönnum liðsins sem og stjórnendur hafa tekið á sig mikla launaskerðingu til að hjálpa félaginu í gegnum fjárhagslega erfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins.
Gylfi Þór Sigurðsson og Grétar Rafn Steinsson, sem gegnir yfirnjósnarastöðu hjá Everton, eru sjálfsagt í þessum hópi. Samkvæmt The Guardian og Sky Sports hafa sumir leikmanna liðsins samþykkt að fá aðeins 50% launa sinna í þrjá mánuði. Mismunandi er hvort menn gefa eftir laun eða hvort launagreiðslum er frestað.
Í bréfi sem framkvæmdastjórinn Denise Barrett-Baxendale, framkvæmdastjóri Everton, sendi stuðningsmönnum liðsins lýsir hún yfir gríðarmiklu þakklæti yfir þeim samtakamætti sem einkenni starfsfólk félagsins nú þegar verið sé að koma því í gegnum krefjandi tíma. Þar með hafi tekist að greiða öllum laun, þar á meðal þeim sem starfi á leikdögum og hafi því ekki haft neitt að gera frá því 13. mars.
Hluti þeirra peninga sem leikmenn og starfsfólk hafa gefið frá sér hefur verið settur í „Blue Family“-sjóðinn sem notaður er til að styðja við þá sem eru hjálpar þurfi í Liverpool-borg. Í sjóðinn hefur einnig safnast fé frá ársmiðahöfum sem höfnuðu endurgreiðslu vegna þeirra leikja sem þeir urðu af vegna kórónuveirufaraldursins.
Everton hefur keppni að nýju í ensku úrvalsdeildinni þann 21. júní með stórleik við Liverpool. Fari svo að Manchester City tapi gegn Arsenal 17. júní gæti Liverpool tryggt sér Englandsmeistaratitilinn með sigri á Everton. Hugsanlegt er að leikurinn fari því ekki fram á Goodison Park eins og til stóð heldur á hlutlausum velli þar sem minni líkur eru á að stuðningsmenn hópist saman fyrir utan völlinn, með tilheyrandi smithættu því Bretar glíma enn við kórónuveirufaraldurinn. Engir áhorfendur verða leyfðir á leikjum í ensku úrvalsdeildinni þegar keppni hefst að nýju.