Íslenski boltinn

Sérfræðingar Pepsi Max lofsama Rúnar Kristins: „Hann er virtur af öllum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar er vel liðinn af bæði starfsliði sínu sem og sérfræðingum Pepsi Max deildarinnar.
Rúnar er vel liðinn af bæði starfsliði sínu sem og sérfræðingum Pepsi Max deildarinnar. Vísir/Daniel Thor

Farið var yfir lið KA, KR og ÍA í síðasta undirbúningsþættinum fyrir Pepsi Max deildina. Sérfræðingarnir að þessu sinni voru Sigurvin Ólafsson og Þorkell Máni Pétursson ásamt Gumma Ben, þáttastjórnanda.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að ræða lið KR án þess að ræða þjálfara liðsins. Rúnar Kristinsson hefur náð lygilegum árangri í Vesturbænum og gerði liðið nokkuð óvænt að Íslandsmeisturum í fyrra.

„Eftir því sem fólk sér og heyri fleiri viðtöl við Rúnar þá held ég að fólk læri að meta betur hversu góður þjálfari hann er,“ segir Gummi.

„Það eru bara allir sammála um það enda er það bara rétt. Hann er virtur af öllum.“ svaraði Sigurvin Ólafsson, fimmfaldur Íslandsmeistari með KR, FH og ÍBV á sínum tíma, um hæl.

„Hann er óumdeildur, sem er ekkert auðvelt sem KR-ingur,“ sagði Gummi í kjölfarið.

„Hann er líka þvílíkur herramaður. Hvernig framkoma hans er, hvort það sé í fjölmiðlum, gagnvart sínu fólki, dómurum, það eru allir hlutir til fyrirmyndar hjá honum og ég held að það sé helsta ástæða þess að maðurinn nái árangri,“ sagði Þorkell Máni og ljóst að Rúnar er í miklum metum hjá sérfræðingum Pepsi Max deildarinnar.

Máni hélt áfram.

„Hann hefur staðið þétt við bakið á sínum leikmönnum ef það hafa komið upp á einhverjar uppákomur og leyst erfið mál. Eins og í fyrra leysti hann mörg erfið mál, stóð með sínum leikmönnum. Þetta er alvöru leiðtogi,“ sagði Máni jafnframt. Er hann þar að vitna í mál Björgvins Stefánssonar sem margir héldu að myndu enda veru hans í KR.

Eftir þessar lofræður þá ræddu þeir það sem Rúnari hefur ekki tekist en það er að gera KR að meisturum tvö ár í röð. Ræddi Gummi það við Rúnar í annál Pepsi Max deildarinnar undir lok síðasta árs.

Svar Rúnars sem og lofræðurnar má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Sérfræðingar Pepsi Max lofsama Rúnar Kristins

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×