Erlent

Þjóðverjar afnema ferðatakmarkanir til Íslands

Kjartan Kjartansson skrifar
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, tilkynnti um fyrirhugaðar breytingar á takmörkunum á ferðalög vegna kórónuveirufaraldursins í dag.
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, tilkynnti um fyrirhugaðar breytingar á takmörkunum á ferðalög vegna kórónuveirufaraldursins í dag. Vísir/EPA

Ferðatakmörkunum sem hafa verið í gildi í Þýskalandi vegna kórónuveirufaraldursins gagnvart Evrópusambandslöndum, Bretlandi auk Íslands, Noregs, Liechtenstein og Sviss verður aflétt með fyrirvörum frá og með 15. júní.

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í dag að banninu yrði aflétt svo lengi sem ekki væri komubann eða útgöngubann í gildi í ríkjunum sjálfum. Öll ríkin nema Noregur uppfylltu þau skilyrði en þar er bann við komum ferðamanna enn í gildi. Þá á þýska ríkisstjórnin eftir að taka afstöðu til ferðalaga til Spánar þar sem enn liggur ekki fyrir hvort að komubann verður framlengt, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Í stað ferðatakmarkananna ætla þýsk stjórnvöld að taka upp ferðaráðgjöf sem verður uppfærð daglega í ljósi fjölda smitaðra í hverju ríki fyrir sig, að sögn Süddeutsche Zeitung. Þýsk stjórnvöld vara þó enn við ónauðsynlegum ferðalögum til Bretlands á meðan krafa um fjórtán daga sóttkví er í gildi þar.

Íslensk stjórnvöld hyggjast aflétta takmörkunum á ferðalög 15. júní sömuleiðis. Þá verður ferðamönnum boðið upp á að velja frekar að gangast undir skimun eða framvísa vottorði frá heimalandi sínu í stað þess að þurfa að sæta fjórtán daga sóttkví við komuna til landsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.