Erlent

Fór sjálfur á vettvang og ýtti á eftir rýmingu torgsins fyrir ávarp Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
William Barr, í hvítri skyrtu fyrir miðju, ræðir við lögreglumenn við Lafayette-torg í gær.
William Barr, í hvítri skyrtu fyrir miðju, ræðir við lögreglumenn við Lafayette-torg í gær. AP/Alex Brandon

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, fór sjálfur á vettvang og fyrirskipaði lögreglumönnum að stækka það svæði sem mótmælendur máttu ekki vera á við Laffayette-torg í grennd við Hvíta húsið í Washington, skömmu áður en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna ávarpaði bandarísku þjóðina í gær.

Washington Post greinir frá og hefur eftir embættismönnum innan dómsmálaráðuneytisins. Í frétt blaðsins segir að ákvörðun um að útvíkka svæðið hafi verið tekin síðla sunnudags eða snemma í gær, og átti að koma til framkvæmda í gær. Skömmu áður en Trump ávarpaði þjóðinna vegna mikilla óeirða og mótmæla víða um Bandaríkin kíkti Barr á torgið, til að athuga hvort búið væri að fylgja skipuninni um að útvíkka svæðið.

Þegar hann kom þangað hafði lögregla ekki ýtt mótmælendum, sem voru að mótmæla friðsamlega, lengra burt frá torginu. Ítrekaði Barr við lögreglumenn að ýta þyrfti mótmælendunum lengra í burtu.

Á meðan Trump hélt ávarpið skutu lögregluþjónar táragasi og hvellsprengjum að friðsömum mótmælendum við St. John's kirkjuna, sem stendir við torgið. Mótmælendur voru reknir af torginu sem kirkjan stendur við en hún hefur skemmst í óeirðum síðustu daga. Mótmælendur voru ósáttir við framferði lögreglunnar, enda höfðu þeir verið að mótmæla á friðsaman hátt þegar lögreglan beitti táragasinu.

Í frétt Washington Post er haft eftir embættismanni innan dómsmálaráðuneytisins ákvörðunin um að rýma torgið hafi verið tekin óháð því hvaða áætlanir Trump hafi haft uppi.

Eftir að ávarpinu lauk sagðist Trump ætla á „afar sérstakan stað“ til þess að votta virðingu sína og átti hann við umrædda kirkju. Gekk Trump að kirkjunni þar sem hann stillti sér upp til myndatöku, með biblíu í hönd.


Tengdar fréttir

Biskup for­dæmir kirkju­heim­sókn Banda­ríkja­for­seta

Biskup í Washington D.C. hefur fordæmt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir heimsókn sína í St. Johns biskupakirkjuna í grennd við Hvíta húsið í gær. Mótmælendur í grennd við kirkjuna voru beittir táragasi til þess að rýma svæðið fyrir myndatöku forsetans.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.