Íslenski boltinn

Keflavík gerði jafntefli við Íslandsmeistarana í Frostaskjóli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ægir Jarl skoraði mark KR-inga í kvöld.
Ægir Jarl skoraði mark KR-inga í kvöld. Vísir/Bára

Íslandsmeistarar KR náðu aðeins jafntefli gegn Keflavík er liðin mættust í æfingaleik í Frostaskjóli í kvöld. Lokatölur 1-1 en gestirnir leika í Lengjudeildinni í sumar á meðan KR eru ríkjandi Íslandsmeistarar í knattspyrnu.

Keflvíkingar gáfu Valsmönnum hörku leik í 45 mínútur á dögunum og sýndu svo sannarlega hvað þeir geta í Vesturbænum í kvöld. Varnarmaðurinn ungi Finnur Tómas Pálmason fékk rautt spjald fyrir að henda leikmanni Keflavíkur í jörðina um miðbik fyrri hálfleiks.

Líkt og í öðrum æfingaleikjum þar sem leikmenn hafa fengið rautt fengu Íslandsmeistararnir að setja annan mann inn á. Það var svo sömmu síðar sem Ægir Jarl Jónasson kom heimamönnum yfir og var það eina mark fyrri hálfleiks.

Eftir aðeins tíu mínútur í síðari hálfleik jafnaði Adam Ægir Pálsson metin fyrir Keflavík og þar við sat. Lokatölur 1-1 en KR tapaði 3-0 fyrir Stjörnunni á dögunum á meðan Keflavík tapaði 5-1 fyrir Val eftir að hafa verið aðeins 2-1 undir í hálfleik.

Þrír ungir KR-ingar spiluðu sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk í kvöld. Þar af sonur Bjarna Guðjónssonar, aðstoðarþjálfara KR og fyrrum fyrirliða liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×