Íslenski boltinn

Haukur Páll telur að tímabilið í ár verði ólíkt því sem við sáum í fyrra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haukur Páll segir Valsliðið klárt í að berjast um Íslandsmeistaratitilinn.
Haukur Páll segir Valsliðið klárt í að berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Mynd/Stöð 2 Sport

Valsmenn ullu miklum vonbrigðum á síðustu leiktíð þegar liðið endaði í sjötta sæti deildarinnar og náðu ekki að tryggja sér Evrópusæti. Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, segir félagið stefna á að vera í toppbaráttu í sumar en hann ræddi við Gaupa fyrir Sportpakka Stöðvar 2 í kvöld.

Viðtalið við Hauk sem og alla frétt Gaupa má sjá í spilaranum neðst í fréttinni.

„Það voru vonbrigði, síðasta tímabil. Við erum búnir að æfa vel vel og teljum okkur vera tilbúna. Núna nýtum við þessa daga í að fínpússa hluti sem hafa ekki verið í lagi í leikjunum. Þannig að við ætlum okkur að vera 100 prósent klárir,“ sagði Haukur Páll, fyrirliði Vals, þegar Gaupi ræddi við hann fyrr í dag.

„Við erum búnir að æfa vel, höfum svo sem gert það undanfarin ár líka en þetta er búið að vera skrítið undirbúningstímabil. Erum búnir að vera æfa mikið sjálfir og mikið af hlaupum sem tíðkast kannski ekki mikið í dag. Hér áður fyrr var mikið um útihlaup en þau eru svo gott sem horfin í dag,“ sagði Haukur kíminn en útihlaupin hlutu endurnýjun lífdaga á meðan liðin gátu ekki æft sökum kórónufaraldursins.

Valur stefnir á að vera í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í haust en nóg af liðum stefna á þann stóra í ár.

„Miðað við hvernig menn eru að spá verða mörg lið að berjast um titilinn og við ætlum að vera eitt af þeim. Maður hefur lítið séð af liðunum í vetur en þetta verður vonandi jafnt og skemmtilegt mót. Þetta verður öðruvísi mót en í fyrra þar sem KR stakk af,“ sagði Haukur spakur um mögulega toppbaráttu Valsmanna í sumar.

Valur heimsótti Breiðablik í gær þar sem leikar fóru 3-3. Haukur Páll þurfti því miður að yfirgefa völlinn í fyrri hálfleik vegna meiðsla en hann segir heilsuna góða.

„Hún [heilsan] er þokkaleg, þetta var aðallega smá vesen á hælnum á mér en ég verð töluvert meira inn á vellinum þetta sumar vonandi,“ sagði Haukur að lokum en hann hefur verið einkar óheppinn með meiðsli undanfarin ár.

Valur fær erkifjendur sína úr Vesturbæ Reykjavíkur í heimsókn í fyrsta leik Pepsi Max deildar karla þann 13. júní. Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Klippa: Haukur Páll er spenntur fyrir komandi tímabili

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.