Íslenski boltinn

Markasúpa er Breiðablik og Valur gerðu jafntefli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrick Pedersen skoraði tvívegis í dag og er sjóðandi heitur þegar tvær vikur eru í fyrsta leik Pepsi Max deildarinnar.
Patrick Pedersen skoraði tvívegis í dag og er sjóðandi heitur þegar tvær vikur eru í fyrsta leik Pepsi Max deildarinnar. Vísir/Daníel

Breiðablik og Valur gerðu jafntefli í hörkuleik á Kópavogsvelli í kvöld. Lokatölur 3-3 en bæði lið eru í óðaönn að undirbúa sig fyrir Pepsi Max deild karla sem hefst um miðbik júní mánaðar. Báðum liðum er spáð góðu gengi í sumar.

Þá var vel mætt á leikinn en allur ágóði miðasölunnar rann til Píeta samtakanna.

Leikurinn á Kópavogsvelli var mikil skemmtun og ljóst frá fyrstu mínútu að sóknarleikurinn væri í fyrirrúmi. Það tók gestina frá Hlíðarenda aðeins tíu mínútur að komast yfir en markið gerði varnarmaðurinn Orri Sigurður Ómarsson.

Það tók danska refinn Thomas Mikkelsen aðeins fimm mínútur að jafna metin og á 25. mínútu komust heimamenn yfir. Mikkelsen skoraði þá af öryggi úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals, braut klaufalega af sér.

Áður en fyrri hálfleikur var úti höfðu Valsmenn hins vegar jafnað metin. Þar var að verki Patrick Pedersen, einnig úr vítaspyrnu, en brotið hafði þá verið á Sigurði Agli Lárussyni. 

Vítin voru keimlík en Danirnir sendu þau niðri í hægra hornið á meðan markverðir beggja liða fóru til vinstri. Fleiri urðu mörkin í fyrri hálfleik ekki og staðan 2-2 þegar Vilhjálmur Alvar Þórarinsson flautaði til hálfleiks.

Þegar 20 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik kom Pedersen Val aftur yfir en það var í uppbótartíma leiksins sem varamaðurinn Kwame Quee skoraði þriðja mark Blika og síðasta mark leiksins.

Lokatölur 3-3 í hörkuleik á Kópavogsvelli í kvöld. Valsmenn mæta KR-ingum í fyrsta leik Pepsi Max deildar karla þann 13. janúar næstkomandi. Verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.