Erlent

Frestar fundi G7 aftur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti vill gjarnan bjóða Rússa aftur velkomna í hóp G7 ríkjanna auk Indlands, Suður-Kóreu og Ástralíu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti vill gjarnan bjóða Rússa aftur velkomna í hóp G7 ríkjanna auk Indlands, Suður-Kóreu og Ástralíu. Vísir/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í morgun að hann myndi þrátt fyrir allt fresta fundi G7 ríkjanna í ár fram í september. Trump sagði í síðustu viku að líklegast yrði fundurinn haldinn í Washington, þar sem leiðtogarnir myndu hittast augliti til auglits. Þá segist hann jafnan vilja bjóða fleiri ríkjum að taka þátt í fundinum.

G7 fundur þessa árs hefur verið umtalaður en í fyrra, þegar undirbúningur fundarins hófst, vildi forsetinn halda hann í húsnæði golfklúbbsins National Doral Miami, klúbbs í hans eigu. Hann var harðlega gagnrýndur fyrir að ætla að halda fundinn þar og sögðu margir gagnrýnendur mjög óeðlilegt að forsetinn myndi hagnast persónulega á embættisstörfum sínum.

Þá var fundinum frestað í byrjun þessa árs eftir að kórónuveirufaraldurinn breiddist út en í síðustu viku kom fram að stefnt væri að því að halda fundinn á Camp David, sumarbústað forsetans rétt fyrir utan Washington borg í lok júní þessa árs.

Leiðtogarnir áttu bókaðan fjarfund í júní en Trump telur mikilvægt að þeir hittist augliti til auglits.

Angela Merkel Þýskalandsforseti afþakkaði boð forsetans til Bandaríkjanna í ljósi kórónuveirufaraldursins og Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, sagðist tilbúinn að koma til Washington ef aðstæður í ljósi Covid breyttust. Þá sagðist Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sammála Trump með það að mikilvægt væri að leiðtogar G7 ríkjanna hittust augliti til auglits í náinni framtíð. Það verður þó ekki eins og staðan er nú.

Löndin sjö sem taka þátt í fundinum eru Bandaríkin, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan og Bretland en þau eru sjö stærstu hagkerfin í heiminum. Trump segist gjarnan vilja að Rússland, Suður-Kórea, Ástralía og Indland bætist í hópinn. Trump hefur áður lýst því yfir að hann vilji bjóða Rússa aftur velkomna í hópinn en Rússar voru í hópnum, sem þá var kallaður G8, til ársins 2014 en þeim var vísað úr honum eftir innlimun þeirra á Krímskaga frá Úkraínu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.