Enski boltinn

Datt aftur og aftur úr hóp daginn fyrir leik af því að hann var ekki enskur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrik Sigurður Gunnarsson sést hér í marki Brentford í leik á undirbúningstímabilinu.
Patrik Sigurður Gunnarsson sést hér í marki Brentford í leik á undirbúningstímabilinu. Getty/Ker Robertson

Íslenski unglingalandsliðsmarkvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson var ekki oft í hóp hjá Brentford í ensku b-deildinni í vetur en hann sagði ástæðuna fyrir því í viðtali við vefsíðuna fótbolti.net.

Það hefur nefnilega margoft komið niður á Patriki að vera ekki með enskt vegabréf. Hann ætti að vera varamarkvörður liðsins en vegbréf þriðja markvarðarins hjálpar honum oft inn í hópinn.

„Ég var færður upp í aðalliðið og gerði nýjan samning í kjölfarið. Hef já, verið mestmegnis þriðji markmaður, en ákveðin regla hefur komið í veg fyrir að ég væri oftar á bekknum," sagði Patrik Sigurður Gunnarsson við Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke á vefsíðunni fótbolti.net og útskýrði síðan það enn frekar:

„Við höfum sem sagt verið í miklu veseni með enska leikmenn, það verða að vera sjö í hóp og við rétt náðum því með því að hafa Englending sem varamarkmann. Það kom oftar en tíu sinnum fyrir á fyrri hluta tímabilsins að ég var valinn í hóp en skipt var um varamarkmann degi fyrir leik vegna skorts á enskum leikmönnum. Það jákvæða við það er að maður lærir mikið á því andlega og tekur það með sér í reynslubankann," sagði Patrik.

Á endanum fór Patrik á láni til C-deildarliðsins Southend í febrúar og var hjá félaginu þar til að kórónuveiran stoppaði allan fótbolta í Englandi.

„Aðalmarkmaðurinn hjá þeim meiðist illa eftir að glugginn er lokaður og liðið þurfti að fá markmann á neyðarláni. Hemmi (Hermann Hreiðarsson) spilaði auðvitað stóran part í þessu og er ég honum virkilega þakklátur fyrir að gefa mér traust," sagði Patrik.

Hann horfir jákvætt á þessa reynslu sína hjá Southend.

„Heilt yfir gekk mér nokkuð vel, ég náði ekki að taka þátt i mörgum æfingum með liðinu og einungis þremur leikjum. Ég lít á þessa reynslu sem gríðarlega mikilvæga reynslu, að vera aðeins 19 ára að spila í þriðju efstu deild Englands er gríðarlega sterkt, sérstaklega fyrir markmann. Þessi reynsla mun hjálpa mér mikið í framtíðinni," sagði Patrik við blaðamann vefsíðunnar fótbolti.net.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.