Enski boltinn

Gamli Leeds stuðningsmaðurinn skoraði sögulegt íslenskt sigurmark á móti Leeds

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Bergsson fagna hér marki með Bolton Wanderers en hann spilaði með félaginu frá 1995 til 2003.
Guðni Bergsson fagna hér marki með Bolton Wanderers en hann spilaði með félaginu frá 1995 til 2003. Getty/Neal Simpson

Íslenskir knattspyrnumenn hafa tekið mörg stór skref í ensku úrvalsdeildinni síðan hún var sett á laggirnar haustið 1992. Vísir ætlar að skoða nokkur þeirra betur og að þessu sinni er komið að fyrsta íslenska sigurmarkinu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Fyrsta íslenska sigurmarkið skoraði Guðni Bergsson fyrir Bolton Wanderers þann 2. mars 1996 eða fyrir rúmum 24 árum síðan.

Bolton Wanderers vann þarna 1-0 útisigur á á Elland Road, heimavelli Leeds United. Liðið hafði tapað 6-0 fyrir Manchester United í leiknum á undan en Guðni missti af þeim leik vegna meiðsla.

Mark Guðna kom á sextándu mínútu og hann skoraði það með skalla eftir aukaspyrnu frá Scott Sellars. Sellars byrjaði einmitt ferill sinn hjá Leeds United.

Guðni mætti á fjærstöngina og skallaði boltann í markið en markið má sjá hér fyrir neðan.

„Þetta var ljúfur sigur en við vorum staðráðnir í að rífa okkur upp eftir skellinn gegn Manchester United. Markið, sem ég skoraði, kom eftir aukaspyrnu, góður bolti kom inn á markteiginn og ég náði að skalla knöttinn í netið. Þegar mörkin telja, sem maður er að skora, þá er gaman," sagði Guðni Bergsson í samtali við DV.

Þetta var fyrsti leikur hans með aðalliði Bolton í þrjár vikur eða síðan 10. febrúar. Guðni rifbeinsbrotnaði þá eftir samstuð við Dwight York í leik á móti Aston Villa.

„Ég fékk svona heiftarlegt olnbogaskot í síðuna frá Dwight Yorke, sóknarmanni Villa. Þetta var algjört óviljaverk, enda er sá piltur hinn Ijufasti og þekktur fyrir allt annað en svona. Þetta hitti bara á slæman stað," sagði Guðni við DV eftir leikinn.

Guðni missti af þremur leikjum Bolton, tveimur deildarleikjum og einum bikarleik. Hann sneri hins vegar aftur til baka með eftirminnilegum hætti. Hann þurfti reyndar að sætta sig við að spila sem bakvörður í leiknum en það gekk svona vel.

„Það var mikilvægt að vinna þennan leik eftir sjokkið gegn Manchester United á dögunum. Sigurinn gefur okkur vonandi aukið sjálfstraust i þeirri baráttu sem framundan er i fallbaráttunni. Ég sem gamall stuðningsmaður Leeds fékk engan sérstakan móral yfir því að hafa skorað sigurmarkið gegn þeim," sagði Guðni við DV eftir leikinn á móti Leeds.

Guðni Bergsson með lukkudýri Bolton Wanderers.Getty/Adam Davy/

Guðni Bergsson fagnaði líka sigurmarkinu með því að skrifa undir nýjan tveggja ára samning við Bolton.

„Ég hef átt í viðræðum við forsvarsmenn félagsins undanfarnar vikur varðandi framhaldið og þetta er niðurstaðan. Mér hefur gengið vel með liðinu, fjölskyldunni líður vel í Bolton og félagið gerði mér gott tilboð sem ég ákvað að taka,"sagði Guðni við Morgunblaðið.

Guðni Bergsson spilaði á endanum með Bolton til ársins 2003 eða þar til að hann lagði skóna á hilluna eftir 3-0 sigurleik með íslenska landsliðinu í Litháen 11. júní 2003. Guðni var í níu tímabil hjá Bolton Wanderers og var stóran hluta þess tíma sem fyrirliði liðsins.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.