Erlent

Ólafur Ragnar hnýtir í Carl Bildt fyrir að gleyma Íslandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. Vísir/Vilhelm

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, setti ofan í við Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, á Twitter í gærkvöldi. Fannst honum undarlegt að Bildt hafi birt línurit um dauðsföll á Norðurlöndum auk nokkurra annarra ríkja vegna Covid-19 en hafi skilið Ísland út undan.

Staðan á Íslandi sé áhugaverðust af þeim öllum að mati Ólafs Ragnars miðað við hvernig gengið hafi að bregðast við veirunni. Samkvæmt CNN sé Ísland eitt fjögurra ríkja heimsins sem önnur ríki geti lært af.

Í tísti Bildt segir hann mikinn mun á því hvernig Norðurlönd hafi brugðist við heimsfaraldrinum sem nýja kórónuveiran sé. Sömuleiðis að mikill munur sé á afleiðingunum veirunnar, eins og dauðsföllum.

Yfirvöld í Svíþjóð hafa verið gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi vegna faraldursins og sænskur almenningur einnig. Lítið hefur verið skimað fyrir Covid-19, sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur, og hafa aðgerðir yfirvalda varðandi félagsforðun verið umfangslitlar.

Búið er að staðfesta að 12.540 hafi smitast af veirunni í Svíþjóð en minnst 1.333 hafa dáið.

Í Danmörku hafa minnst 7.268 smitast og 321 dáið. Í Noregi hafa minnst 6.905 smitast og 152 dáið. Í Finnlandi hafa minnst 3.489 smitast og 75 dáið. Hér á Íslandi eru svo 1.739 staðfest smit og níu hafa dáið.

Svíar hafa sagt að hátt hlutfall látinna, miðað við staðfest smit, þar í landi einkennist af því hvernig þeir telji hina dánu. Látnum hefur þó fjölgað hratt og undanfarinn sólarhring voru þeir minnst 130. Samkvæmt SVT er talið mögulegt að ekki sé búið að tilkynna öll tilfelli.

Endast lengur en aðrir

Nú í morgun hélt Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, blaðamannafund þar sem hún sagði ranga mynd hafa verið teiknaða upp af ríkinu og viðbrögðum yfirvalda.

Hún sagði rétt að Svíar hafi gripið til öðruvísi aðgerða en aðrir. Skólum hafi ekki verið lokað og fólki ekki gert að halda sig heima. Hins vegar hafi verið lagt til að fólk stundi félagsforðun og fari varlega.

Munurinn sé sá að Svíar geti haldið þessu áfram til mun lengri tíma en önnur ríki.

Johan Carlson, frá Lýðheilsustofnun Svíþjóðar, sagði Svía geta haldið viðhaldið aðgerðum sínum til 2022, þurfi þess.


Tengdar fréttir

CNN segir viðbrögð yfirvalda hér á landi geta kennt umheiminum fjórar lexíur

Bandaríski fjölmiðilin CNN tekur Ísland sem dæmi um eitt af fjórum ríkjum sem brugðist hafi rétt við til að stemma stigu við kórónuveirufaraldurinn í viðkomandi ríkjum. Alls telur CNN að læra megi tólf lexíur af viðbrögðum þessara fjögurra ríkja, og þar af á Ísland þriðjung þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×