Enski boltinn

Carragher segir að Ndombele sé „YouTube leikmaður“ sem gangi um eins og gamalmenni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tanguy Ndombele hefur ekki fundið sig hjá Tottenham.
Tanguy Ndombele hefur ekki fundið sig hjá Tottenham. vísir/getty

Jamie Carragher segir að Tanguy Ndombele, dýrasti leikmaður í sögu Tottenham, sé „YouTube leikmaður“ sem gangi um völlinn eins og gamalmenni.

Ndombele var tekinn af velli í hálfleik þegar Tottenham gerði 1-1 jafntefli við Burnley í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Eftir leikinn gagnrýndi José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, Ndombele nokkuð harkalega. Carragher tók undir gagnrýni Mourinhos.

„Það er munur á því að vera með frábæra hæfileika og vera frábær leikmaður. Hann er eins og YouTube leikmaður,“ sagði Carragher í Monday Night Football á Sky Sports í gær.

„Hann getur heillað fólk á YouTube en þegar þú horfir á hann spila gerir hann ekki nóg til að réttlæta verðmiðann.“

Carragher segir að Ndombele sé einfaldlega of latur og það fari greinilega í taugarnar á Mourinho.

„Hann er mjög góður með boltann. Hann kemur boltanum vel frá sér og tapar honum mjög sjaldan. En á þessum 45 mínútum tók hann ekki einn sprett. Hann labbar bara um og hreyfist ekki þangað til boltinn kemur til hans,“ sagði Carragher um 65 milljóna punda manninn Ndombele.

„Annað hvort getur hann ekki eða vill ekki hlaupa. Líkamstjáningin minnir mann svolítið á Yaya Touré. Hann skokkar um, labbar eins og gamalmenni. Mourinho hafði rétt fyrir sér. Hann er ekki hrifinn af honum. Hann hlýtur að vera mjög latur á æfingum og Mourinho missti þolinmæðina.“

Ndombele sló í gegn hjá Lyon á síðasta tímabili. Hann hefur leikið sex leiki fyrir franska landsliðið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×