Erlent

Boða nýja Marshalláætlun fyrir Evrópu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Evrópusambandið undirbýr nú ný fjárlög með kórónuveirufaraldurinn að leiðarljósi. Forseti framkvæmdastjórnarinnar segir þörf á nýrri Marshall-áætlun.

Marshall-áætlunin var bandarísk aðgerð sem miðaði að því að endurreisa Vestur-Evrópu eftir hamfarir seinni heimsstyrjaldar. Orð Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, gefa því ágætis mynd af því hversu alvarlegum augum sambandið lítur stöðuna.

„Við þurfum nýja Marshalláætlun svo Evrópa jafni sig. Þetta þarf að gerast strax. Við eigum bara eitt verkfæri sem öll aðildarríki treysta, sem er reiðubúið og hægt að grípa til sem fyrst. Það er gegnsætt og hefur staðist tímans tönn. Það eru evrópsku fjárlögin,“ sagði forsetinn.

Að sögn von der Leyen verða þessi nýju fjárlög afar frábrugðin þeim sem þegar hafði verið rætt um, enda þurfi að bregðast við faraldrinum af mikilli hörku. 

Nokkuð frost hafði verið í viðræðum um ný fjárlög undanfarna mánuði og ríki rök við að fylla í það skarð sem Bretar skilja eftir sig.

Von der Leyen bað ítölsku þjóðina einnig afsökunar á því að ESB hafi ekki rétt út hjálparhönd strax í upphafi.

„Það er rétt að það var enginn tilbúinn fyrir þennan faraldur. Og það er rétt að margir voru ekki til staðar þegar Ítalía þurfti á hjálp að halda. Á því biðst Evrópa afsökunar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×