Erlent

Danir létta á félagsforðun fyrr en til stóð

Samúel Karl Ólason skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. EPA/Philip Davali

Ríkisstjórn Danmerkur er tilbúin til að létta á félagsforðun þar í landi, fyrr en til stóð. Mette Frederiksen, forsætisráðherra, segir allar kúrvur á réttri leið og það sé tilefni til fagnaðar. Hún er þó ekki tilbúin til að segja hvað standi til að opna og segir að til standi að ræða það við forsvarsmenn þingflokkanna. Þær viðræður hefjast í kvöld.

Skólar verða að miklu leyti opnaðir á nýjan leik á morgun. Til stóð að kaffihús, hárgreiðslustofur og slíkt mætti opna þann 10. maí næstkomandi og var það tilkynnt í síðustu viku. Frederiksen vill nú flýta því.

Hún sagði í dag að enn yrði forgangur á forvarnir enn aðgerðunum væri ætlað að styrkja efnahag Danmerkur í sessi og tryggja störf. Stigið yrði rólega og varlega til jarðar í þessum málum.

Samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans hefur í Danmörku minnst 6.691 greinst með Covid-19, sjúkdóminn sem nýja kórónuveiran veldur, og hafa minnst 299 dáið.

Frederiksen var spurð að því í dag hvort ríkisstjórn hennar hefði brugðist of hart við og gripið til of umfangsmikilla aðgerða. Hún tók alls ekki undir það. Hún sagði stöðuna víðast hvar ekki jafn góða og í Danmörku og að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi líklegast bjargað mannslífum.

Hún sagði að samkomulag Dana um félagsforðun hafa borið betri árangur en vonast hafi verið eftir.


Tengdar fréttir

Vill að Danmörk opni hraðar

Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, er ósáttur við það hvernig eftirmenn hans í ríkisstjórn landsins ætla sér að aflétta takmörkunum í landinu vegna kórónuveirunnar.

Öllum batnað og engin ný smit greind á Grænlandi

Landlæknir Grænlands skýrði frá því á upplýsingafundi í Nuuk í gær að allir þeir ellefu einstaklingar, sem greinst höfðu með kórónuveiruna þar í landi, teldust núna hafa náð bata. Þá hefðu engin ný smit greinst í landinu.

Danir framlengja samkomubann fram yfir páska

Forsætisráðherra Danmerkur tilkynnti nú síðdegis að samkomubannið þar í landi verði framlengt fram á annan dag páska, 13. apríl. Til skoðunar er að koma á svæðisbundnu ferðabanni yfir páskana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×