Erlent

Öllum batnað og engin ný smit greind á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Nuuk, höfuðstað Grænlands. Gamla höfnin í forgrunni.
Frá Nuuk, höfuðstað Grænlands. Gamla höfnin í forgrunni. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Landlæknir Grænlands skýrði frá því á upplýsingafundi í Nuuk í gær að allir þeir ellefu einstaklingar, sem greinst höfðu með kórónuveiruna þar í landi, teldust núna hafa náð bata. Þá hefðu engin ný smit greinst í landinu. Þar með finnst enginn virkur covid 19-sjúklingur lengur í þessu næsta nágrannalandi Íslands en alls hefur verið skimað þar fyrir veirunni hjá 770 einstaklingum. Grænlensku fréttamiðlarnir KNR og Sermitsiaq fjalla um þessi gleðitíðindi.

Heimskort John Hopkins-háskólans um heimsfaraldurinn hefur verið uppfært í samræmi við þessar nýjustu upplýsingar. Þar segir um Grænland: Staðfest smit 11. Andlát 0. Náð bata 11. Virk smit 0.

Landsstjórn Grænlands hefur ákveðið að skólahald hefjist að nýju eftir páskafrí, þó ekki í Nuuk, en kórónasmitið var bundið við höfuðstaðinn. Hins vegar yrði samgöngubann til og frá landinu, og einnig innanlands, framlengt út aprílmánuð, en því átti áður að ljúka núna um páskana. Ferðir með sérstakri undanþágu frá lögreglu og landlækni eru þó leyfðar.

Air Iceland Connect, sem hugðist hefja flug á ný milli Íslands og Grænlands strax eftir páska, hefur núna tilkynnt að öllu flugi til Grænlands til 30. apríl hafi verið aflýst. „Öll flug eftir 30. apríl eru á áætlun,“ segir á heimasíðu félagsins.

Einu reglubundnu flugferðirnir milli Grænlands og umheimsins hafa verið kórónuflugin milli Nuuk og Kaupmannahafnar, með millilendingu í Keflavík; loftbrúin sem grænlensk stjórnvöld settu upp til að flytja covid-19 sýni til greiningar í Danmörku.


Tengdar fréttir

Sala áfengis bönnuð fyrirvaralaust í Nuuk

Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, setti fyrirvaralaust á áfengisbann í Nuuk og nágrannabyggðum í gærkvöldi, sem tók gildi kl. 20 á laugardagskvöldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×