Innlent

Kórónu-flugið sem lendir í Keflavík sex sinnum í viku

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugvélar Air Greenland af gerðinni DASH 8-Q200 eru notaðar í flugið. Myndin er frá flugvellinum í Nuuk.
Flugvélar Air Greenland af gerðinni DASH 8-Q200 eru notaðar í flugið. Myndin er frá flugvellinum í Nuuk. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Ein óvenjulegasta flugleið sem haldið er uppi þessa dagana er loftbrúin sem grænlensk stjórnvöld hafa sett upp til að flytja covid-19 sýni frá Grænlandi til greiningar í Danmörku. Það er tímanna tákn að einu flugvélarnar sem sáust um tíma á lofti við Ísland í morgun sinntu þessu flugi.

Laust fyrir hádegi mátti sjá tvær vélar Air Greenland að nálgast Ísland, önnur var út af Faxaflóa en hin suðaustur af landinu. Báðar áætluðu millilendingu í Keflavík og þetta voru raunar einu flugvélarnar sem mátti sjá við Ísland á þeirri stundu á ratsjárvefnum Flightradar24.

Flogið er að jafnaði þrisvar í viku milli Nuuk og Kaupmannahafnar með millilendingu á Íslandi, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Þetta þýðir sex millilendingar í viku í Keflavík. 

Ástæðan fyrir því að tvær vélar lenda þar í dag er sú að ferðin frá Nuuk féll niður síðastliðinn föstudag vegna óveðurs á Grænlandi og var í staðinn flogið um helgina. Þetta þýddi að seinkun varð á birtingu nýrra talna um smit sem þessu nam.

Ratsjársíðan Flightradar24 á tólfta tímanum sýndi tvær Q200 vélar Air Greenland. Önnur var vestur af Faxaflóa hin suðaustur af landinu og báðar á leið til Keflavíkurflugvallar. Þessar tvær veiruflugvélar voru þær einu sem sáust á lofti við Ísland.Skjáskot/Flightradar24.

Loftbrúnni var komið á fót eftir að áætlunarflugi Air Greenland á Airbus A330-þotu milli Kangerlussuaq og Kaupmannahafnar var hætt tímabundið vegna faraldursins.

Ferðirnar eru farnar á 37 sæta skrúfuþotum, DASH 8 Q-200, samskonar og Air Iceland rekur, og er þetta núna eina flugtenging Grænlands við umheiminn. Í bakaleiðinni eru fluttar nauðsynjavörur til Grænlands. Ekki eru auglýst farþegasæti til sölu en vélarnar nýtast þó til að flytja fólk í neyð á milli.

Q-200 vélarnar fljúga á um 490 kílómetra hraða, talsvert hægar en þotur, og er flugtíminn milli Nuuk og Kaupmannahafnar um átta klukkustundir, fyrir utan stoppið í Keflavík. Hér má sjá slíka vél lenda í Nuuk í frétt um útboð flugvallargerðar í fyrra:


Tengdar fréttir

Sala áfengis bönnuð fyrirvaralaust í Nuuk

Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, setti fyrirvaralaust á áfengisbann í Nuuk og nágrannabyggðum í gærkvöldi, sem tók gildi kl. 20 á laugardagskvöldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×