Erlent

Halda „óvinalista“ um embættismenn innan Trump-stjórnarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump forseti er þekktur fyrir að meta persónulega hollustu við sig ofar öllu öðru. Hann hefur lengið talað um vilja sinn til að hreinsa það sem hann kallar vont fólk út úr ríkisstjórn sinni.
Trump forseti er þekktur fyrir að meta persónulega hollustu við sig ofar öllu öðru. Hann hefur lengið talað um vilja sinn til að hreinsa það sem hann kallar vont fólk út úr ríkisstjórn sinni. Vísir/Getty

Hvíta húsið og bandamenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafa tekið saman lista yfir embættismenn sem þeir telja ekki nægilega húsbóndaholla Trump persónulega og vilja láta reka. Eiginkona íhaldssams hæstaréttardómara er á meðal þeirra sem hafa grafið undan embættismönnum við forsetann.

Eftir að öldungadeild Bandaríkjaþings sýknaði Trump forseta af kæru fulltrúadeildarinnar um embættisbrot fyrr í þessum mánuði hefur verið rætt um að forsetinn sé haldinn þráhyggju um að ryðja „slæmu fólki“ úr vegi innan ríkisstjórnar hans. Hann hefur þegar látið hreinsa fjölda embættismanna úr stjórninni, sérstaklega í þjóðaröryggis- og leyniþjónustugeiranum.

New York Times segir þannig að tugir þjóðaröryggissérfræðinga hafi verið látnir fara sem þýði að færri ópólitískir embættismenn komi nálægt forsetanum en áður.

Johnny McEntee, 29 ára gamall fyrrverandi persónulegur aðstoðamaður Trump, var nýlega skipaður yfirmaður starfsmannamála Hvíta hússins. Hann hefur fyrirskipað að pólitískar skipanir verði frystar tímabundið og beðið ráðuneyti um að þefa uppi embættismenn sem eru ekki hliðhollir forsetanum til að hægt verði að reka þá. Ráðherrar fái ekki lengur að velja sér næstráðendur sína heldur muni Hvíta húsið handvelja þá.

Johnny McEntee (lengst til hægri) er nýr yfirmaður starfsmannamála í Hvíta húsinu. Hann er 29 ára gamall fyrrverandi persónulegur aðstoðarmaður Trump og er lýst sem algerlega húsbóndahollum forsetanum.Vísir/EPA

Kona Thomas hæstaréttardómara með puttana í starfsmannamálunum

Nánustu bandamenn forsetans hafa þó undirbúið sig fyrir hreinsanir mun lengur, meðal annars með því að taka saman lista yfir „ótrúa“ embættismenn til að reka og húsbóndaholla stuðningsmenn Trump sem mætti ráða í staðinn. Trump er þekktur fyrir að setja persónulega hollustu við hann ofar öllu öðru. Hann hefur ítrekað sakað bandaríska embættismenn sem hann telur ekki nógu undirgefna sér um að vera hluti af svonefndu „djúpríki“, embættismannakerfi sem grafi undan honum.

Bandaríska fréttasíðan Axios fullyrðir að Hvíta húsið og bandamenn þess hafi unnið að listum sem þessum undanfarna átján mánuði. Trump forseta hafa verið send minnisblöð með tillögum um hverja hann ætti að ráða og reka.

Á meðal þeirra sem hafa tekið saman lista sem þessa er Undiraldan [e. Groundswell], hópur vel tengdra íhaldssamra aðgerðasinna með náin tengsl við Trump og háttsetta embættismenn ríkisstjórnar hans. Ginni Thomas, eiginkona Clarence Thomas, hæstaréttardómara, er sögð í þeim hópi.

Thomas er sögð hafa varið umtalsverðum tíma og orku í að hvetja stjórn Trump til að hrista upp í starfsmannamálum sínum. Samtökin sem hún tekur þátt í að stýra eru sögð hafa átt frumkvæðið af því að bola burt H.R. McMaster, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump árið 2018.

Ginni Thomas (3.f.v.) við hlið eiginmanns síns Clarence Thomas við minningarathöfn um Antonin Scalia heitinn árið 2016.Vísir/EPA

Fékk minnisblað í hendur um saksóknara

Minnisblöð aðgerðasinnanna hafa þegar bundið enda á feril embættismanna. Á meðal þeirra er Jessie Liu, fyrrverandi alríkissaksóknari í Washington. Til stóð að Trump tilnefndi hana til að hafa umsjón með hryðjuverkamálum innan fjármálaráðuneytisins. Trump ákvað hins vegar að hætta við að tilnefna hana eftir að hún var búin að segja af sér saksóknaraembættinu.

Axios segir að skömmu áður en Trump ákvað að kasta Liu út í kuldann hafi hann fengið minnisblað um meintar misgjörðir hennar sem hafði mikil áhrif á hann. Barbara Ledeen, starfsmaður þingflokks repúblikana í öldungadeildinni, er sögð hafa skrifað minnisblaðið.

Það sem Liu hafði sér til saka unnið var fyrst og fremst að ganga ekki nægilega hart fram sem saksóknari gegn þeim sem Trump og bandamenn hans telja andstæðinga sína.

Henni var fundið til foráttu að hafa ekki sótt til saka konur sem sökuðu Brett Kavanaugh, hæstaréttardómara, um kynferðisbrot þegar fjallað var um skipan hans við réttinn í fyrra eða Andrew McCabe, fyrrverandi aðstoðarforstjóra alríkislögreglunnar FBI.

Einnig var það að Liu hefði gefið vilyrði fyrir því að saksóknarar krefðust fangelsisrefsingar yfir Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump, og að hún hefði vísað frá ákærum á hendur mótmælendum við embættistöku Trump sagt sýna fram á að hún væri ekki starfi sínu vaxin.

Það gerði endanlega út um starfshorfur Liu er talið hafa verið að mál gegn Roger Stone, persónulegum vini og ráðgjafa Trump forseta, var höfðað þegar hún stýrði alríkissaksóknaraembættinu í Washington.

Joseph Maguire hefur verið starfandi yfirmaður leyniþjónustumála. Trump varð honum æfareiður á dögunum þegar hann frétti að fulltrúi Maguire hefði upplýst þingmenn um áframhaldandi kosningaafskipti Rússa.Vísir/Getty

Embættismenn uggandi

Hreinsanir undanfarinna daga eru sögð hafa skotið embættismönnum skelk í bringu. Joseph Maguire, starfandi yfirmaður leyniþjónustunnar, fékk reiðilestur frá Trump forseta þegar hann komst að því að fulltrúi Maguire hefði upplýst þingmenn um að Rússar reyndu nú aftur að hjálpa Trump að ná kjöri í forsetakosningum sem fara fram í haust.

Í kjölfarið ákvað Trump að tilnefna Maguire ekki varanlega sem yfirmann leyniþjónustumála og velja frekar Richard Grenell, sendiherra í Þýskalandi sem hefur verið einarður stuðningsmaður forsetans. Meðferðin á Maguire varð William McRaven, fyrrverandi flotaforingja sem stýrði aðgerðum þegar bandarísk sérsveit drap hryðjuverkaleiðtogann Osama bin Laden, tilefni til að skrifa grein í Washington Post um helgina þar sem hann sagði að ástæða væri til að óttast ef „góðir menn eins og Maguire“ mættu ekki segja sannleikann.

Saksóknarar sem heyra undir dómsmálaráðuneytið eru einnig uggandi vegna pólitískra afskipta. Fjórir þeirra sem stýrðu saksókn gegn Roger Stone sögðu sig frá málinu eftir að William Barr, dómsmálaráðherra, greip fram fyrir hendurnar á þeir um refsikröfu í málinu. Ákvörðun Barr um að krefjast mildari refsingar yfir Stone en saksóknararnir lögðu upp með kom aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Trump tísti um málið.

Áður hafði Trump rekið tvo embættismenn sem báru vitni í rannsókn fulltrúardeildar þingsins á meintum embættisbrotum hans sem vörðuðu þrýsting á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitískan keppinaut forsetans.

Alexander Vindman, sérfræðingur þjóðaröryggisráðsins um Úkraínu, var leiddur út úr Hvíta húsinu í fylgd öryggisvarða daginn eftir að repúblikanar í öldungadeildinni sýknuðu Trump. Vindman hafði borið vitni um símtal Trump við Volodýmýr Zelenskíj, forseta Úkraínu, sem hann taldi hafa verið óviðeigandi. Tvíburabróðir Vindman, sem kom hvergi nærri rannsókninni, var einnig rekinn úr starfi í Hvíta húsinu á sama tíma.

Sama dag lét Trump kalla Gordon Sondland, sendiherra gagnvart Evrópusambandinu, heim. Sondland bar vitni við rannsóknina og lýsti samskiptum sem hann átti við úkraínska embættismenn fyrir hönd Trump. Hann hefur fram að þessu verið talinn dyggur stuðningsmaður forsetans.


Tengdar fréttir

Vinur Trump dæmdur í rúmlega þriggja ára fangelsi

Trump forseti hafði sett mikinn þrýsting á dómsmálaráðuneytið, dómara og saksóknara vegna máls vinar sína, Rogers Stone. Saksóknarar sem fóru upphaflega með málið sögðu sig frá því vegna inngrips ráðuneytisins í síðustu viku.

Enn gustar um dómsmálaráðuneyti eftir stormasama viku

Fréttir bárust af nokkrum pólitískum eldfimum málum sem dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur rannsakað í gær í lok viku þar sem efast hefur verið um sjálfstæði ráðuneytisins gagnvart pólitískum þrýstingi Trump forseta.

Trump trompaðist yfir leynilegum fundi um kosningaafskipti Rússa

Bandaríkjaforseti er sagður hafa úthúðað Joseph Maguire, starfandi yfirmanni leyniþjónustunnar, fyrir að hafa leyft fulltrúa sínum að upplýsa þingmenn um áframhaldandi kosningaafskipti Rússa. Það hafi orðið til þess að Trump ákvaða að ganga fram hjá Maguire við varanlega skipan í embættið.

Hömlulausi forsetinn: Engin bönd halda Trump lengur

Í kjölfar þess að Trump var sýknaður af ákærum vegna meintra embættisbrota hefur hann farið hart fram gegn óvinum sínum, raunverulegum og ímynduðum. Þeir sem stóðu í hárinu á forsetanum til að byrja með hafa að miklu leyti yfirgefið sviðið og Repúblikanaflokkinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.