Erlent

Ötull stuðningsmaður Trump settur yfir leyniþjónustuna

Kjartan Kjartansson skrifar
Richard Grenell er talinn sérstaklega handgenginn Trump forseta.
Richard Grenell er talinn sérstaklega handgenginn Trump forseta. Vísir/EPA

Búist er við að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefni Richard Grenell, sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi og ötulan stuðningsmann forsetans, sem starfandi yfirmann leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna. Trump hefur ítrekað vefengt og gagnrýnt leyniþjónustuna og störf hennar.

New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að Grenell verði tilnefndur á næstunni. Hann tæki við af Joseph Maguire sem hefur verið starfandi yfirmaður leyniþjónustunnar (DNI) frá því að Dan Coats sagði af sér síðasta sumar. Yfirmaður leyniþjónustunnar er yfir sautján leyniþjónustustofnunum Bandaríkjanna.

Blaðið segir að frá því að Trump var sýknaður í öldungadeild Bandaríkjaþings af kæru um embættisbrot fyrr í þessum mánuði hafi Hvíta húsið hafið hreinsanir á embættismönnum sem eru ekki taldir nægilega húsbóndahollir Trump persónulega. Í stað þeirra vill það skipa fólk sem er líklegra til þess að verða við óskum forsetans.

Grenell hefur verið ötull málsvari Trump forseta á samfélagsmiðlum og víðar. Þannig hefur hann tekið upp harða gagnrýni Trump og innsta hrings hans á kínverska tæknifyrirtækið Huawei og á evrópska bandamenn sem Trump telur að leggja ekki nóg af mörkum til hermála.

Ekki er talið gefið að Grenell, sem þykir umdeildur, hljóti náð fyrir augun öldungadeildar þingsins sem þyrfti að staðfesta varanlega skipan hans í embætti yfirmanns leyniþjónustunnar. Það er sögð ástæða þess að Trump ætli að tilnefna hann sem starfandi yfirmann stofnunarinnar.

Sem sendiherra í Þýskalandi hefur Grenell vakið umtal fyrir óhefðbunda framkomu sem sumir hafa talið óviðeigandi fyrir sendiherra. Þannig lýsti Grenell því í viðtali að hann vildi efla hægripopúlistaflokka í Evrópu. Hans fyrsta verk sem sendiherra var að hóta Þýskalandi viðskiptaþvingunum í tengslum við kjarnorkusamninginn við Íran sem Trump rifti í maí árið 2018.


Tengdar fréttir

Hömlulausi forsetinn: Engin bönd halda Trump lengur

Í kjölfar þess að Trump var sýknaður af ákærum vegna meintra embættisbrota hefur hann farið hart fram gegn óvinum sínum, raunverulegum og ímynduðum. Þeir sem stóðu í hárinu á forsetanum til að byrja með hafa að miklu leyti yfirgefið sviðið og Repúblikanaflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×