Erlent

Fyrrum starfsmenn ráðuneytisins krefjast afsagnar dómsmálaráðherra

Andri Eysteinsson skrifar
William Barr er dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr er dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Getty/Sarah Silbiger

Yfir ellefu hundruð fyrrverandi starfsmenn bandaríska dómsmálaráðuneytisins sendu frá sér yfirlýsingu í dag. Afar fátítt er að fyrrverandi ríkisstarfsmenn tjái sig með þessum hætti en í yfirlýsingunni kröfðust þeir afsagnar William Barr dómsmálaráðherra.

CNN greinir frá að í hópi þeirra sem standa að yfirlýsingunni séu bæði starfsmenn sem störfuðu undir stjórn Repúblikana og Demókrata. Flestir þeirra séu fyrrverandi saksóknarar en eitthvað sé um aðila sem voru pólitískt skipaðir.

Mikið hefur gustað um dómsmálaráðuneytið undanfarna viku en sjálfstæði þess hefur verið til mikillar umræðu eftir að fjórir alríkissaksóknarar sögðu sig frá máli Rogers Stone, vinar og ráðgjafa Donald Trump Bandaríkjaforseta. Afsagnirnar komu eftir að dómsmálaráðuneytið tók fram fyrir hendurnar á þeim og mildaði refsikröfu yfir Stone sem var sakfelldur fyrir meinsæri, hótanir gegn vitni og að hindra framgang réttvísinnar í nóvember.

Sjá einnig: Enn gustar um dómsmálaráðuneyti eftir stormasama viku

„Að Barr skuli inna persónulega greiða við Bandaríkjaforseta segir er alvarlegt. Gjörðir hans og skaðinn sem þær valda dómsmálaráðuneytinu eru þess háttar að afsagnar hans er krafist. Þar sem að við höfum litla trú á að svo verði raunin er það undir starfsfólki ráðuneytisins komið að virða eiða sína og verja réttlætið,“ segir í yfirlýsingu hópsins.

Í samskiptum við CNN vildi talsmaður Dómsmálaráðuneytisins ekki tjá sig um yfirlýsinguna og hefur Barr ekki gefið neitt til kynna um hvort hann muni segja af sér eður ei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×