Erlent

Verða ákærðir fyrir valdaránstilraun í Venesúela

Samúel Karl Ólason skrifar
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, á blaðamannafundi í gær.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, á blaðamannafundi í gær. AP/Forsetaembætti Venesúela

Yfirvöld Bandaríkjanna ætla að gera allt sem þau geta til að ná tveimur fyrrverandi bandarískum hermönnum sem hafa verið sakaðir um tilraun til valdaráns í Venesúela, aftur heim. Mennirnir verða ákærðir fyrir valdaránstilraun og verður réttað yfir þeim í Venesúela, samkvæmt Nicolas Maduro, forseta.

Málið er hið undarlegasta en mennirnir tveir, Luke Denman og Airan Berry, eru starfsmenn öryggisfyrirtækisins Silvercorp USA en eigandi þess, Jordan Goudreau, hefur viðurkennt að markmið hans sé að koma Maduro frá völdum og heldur því fram að hann stjórni fjölda uppreisnarmanna í landinu.

Denmann og Berry voru handsamaðir fyrr í vikunni þegar til skotbardaga kom við öryggissveitir undan ströndum Venesúela. Sex aðrir voru skotnir til bana og hafa þeir verið sakaði um innrás. Alls hafa sautján verið handteknir vegna innrásarinnar.

Sjá einnig: Undarlegir og misheppnaðir uppreisnartilburðir

Maduro heldur því fram að þessi aðgerð hafi verið studd af stjórnarandstöðu Venesúela, sem Juan Guaídó leiðir, Bandaríkjunum og Kólumbíu.

„Donald Trump er yfirmaður þessarar innrásar,“ sagði Maduro í ávarpi í gær.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna þvertekur fyrir að hafa komið að þessari meintu valdaránstilraun. Það gera bandamenn Guaídó einnig.

Ríkisútvarp Venesúela birti í gær myndband þar sem Luke Denman svarar spurningum um sig og aðgerðina sjálfa. Yfirvöld Venesúela segja þetta vera játningu. Heyra má Denman segja að Silvercorp hafi gert samning við Guaídó um að velta Maduro úr sessi.

Hann segir einnig að markmið þeirra hafi verið að ná stjórn á flugvelli Caracas, höfuðborgar Venesúela, og fljúga með Maduro til Bandaríkjanna. Ekkert kemur fram um það hvernig mennirnir hafi átt að handsama Maduro.

Denman segir ennfremur að Goudreau hafi haft samband við sig og Berry í desember og beðið þá um að þjálfa 50 til 60 menn frá Venesúela í Kólumbíu. Hann flaug til Kólumbíu í janúar.

Maduro hefur sagt að sambærilegt myndband af Berry verði sýnt og stóð til að gera það á sama tíma og myndbandið af Denman var birt. Það var þó ekki gert.

Eins og bent er á í grein CNN hafa yfirvöld Venesúela oft birt myndbönd af þessu tagi. Sem sýna yfirheyrslur og hafa verið klippt verulega til. Mannréttindasamtök hafa fordæmt ríkið fyrir það.

Þar kemur einnig fram að ríkisstjórn Maduro ætlar að leita til Alþjóðaglæpadómstólsins og fara fram á það að Goudreau verði framseldur til Venesúela.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.