Sex ára gömlum dreng var hent fram af útsýnispalli á Tate listasafninu í Lundúnum í gær og féll hann fimm hæðir áður en hann lenti á þaki safnsins. Sautján ára piltur hefur verið handtekinn grunaður um verknaðinn en atvikið átti sér stað rétt fyrir klukkan 15 að staðartíma.
Á vef BBC kemur fram að ástand drengsins sé alvarlegt eftir fallið en líðan hans er stöðug. Samkvæmt talsmanni lögreglu er þó talið líklegt að drengurinn lifi af en unnið er að því að rannsaka tildrög atviksins.
Sjá einnig: Henti sex ára dreng niður af tíundu hæð
Að sögn vitnis heyrðist hár dynkur og í kjölfarið hafi kona öskrað: „Hvar er sonur minn, hvar er sonur minn?“. Viðstaddir hópuðust í kringum karlmann sem var staddur á útsýnispallinum sem var furðu rólegur yfir atvikinu á meðan aðrir forðuðu sér út.
Pilturinn sem er í haldi var handtekinn vegna gruns um tilraun til manndráps en lögregla segir ekkert benda til þess að hann hafi þekkt drenginn sem hann kastaði niður af útsýnispallinum. Hann er enn í haldi lögreglu.
Lögreglu var gert viðvart klukkan 14:40 að staðartíma og voru viðbragðsaðilar mættir á vettvang skömmu síðar. Hlúð var að drengnum á vettvangi áður en hann var fluttur á sjúkrahús.
Safnið verður opið í dag en útsýnispallurinn verður lokaður fyrir gestum.
