James Milner, fyrirliði Liverpool, mun halda með Manchester United í fyrsta skipti á ævinni er United mætir City í slagnum um Manchester annað kvöld.
City og Liverpool eru í mikilli baráttu um toppsætið og United gæti gert Liverpool mikinn greiða með að taka stig af CIty annað kvöld.
„Í fyrsta skipti á ævinni,“ sagði Milner þegar hann ræddi það að hann myndi halda með United í leiknum. „Ég mun hins vegar ekki horfa. Þetta er óþarfa eyðsla á orku að horfa og vilja að boltinn fari í annað markið.“
„Ég get ekki gert neitt í því. Ég mun fara frá símanum og kíkja á hann nokkrum klukkutímum síðar. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég muni gera á meðan. Kannski fer ég út að borða.“
Milner er ekki sammála þeim spekingum sem segja að klári City grannaslaginn annað kvöld þá eigi þeir þrjá auðvelda leiki eftir.
„Það eru þrír leikir eftir leikinn gegn United. Fólk heldur að United sé eina áskorunin en það er bara ein áskorun. Þetta er gömul klisja en enska úrvalsdeildin er erfið, sama hverjum þú spilar á móti.“
