Erlent

Nágranni lýsir dularfullum ferðum bíls daginn sem Anne-Elisabeth hvarf

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Anne-Elisabeth Falkevik Hagen var rænt af heimili sínu þann 31. október síðastliðinn. Mannræningjarnir hafa krafist yfir milljarðs íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt.
Anne-Elisabeth Falkevik Hagen var rænt af heimili sínu þann 31. október síðastliðinn. Mannræningjarnir hafa krafist yfir milljarðs íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt.
Nágranni Hagen-hjónanna í Lørenskógi kveðst hafa séð dularfullum bíl ekið undarlega leið upp að heimili hjónanna daginn sem Anne-Elisabeth Hagen var rænt úr húsinu. Síðast heyrðist frá Anne-Elisabeth klukkan 9:14 að morgni 31. október í fyrra.

Í dag er vika síðan fyrst var greint frá hvarfi Anne-Elisabeth, 68 ára húsmóður og eiginkonu Tom Hagen, eins ríkasta manns Noregs. Nágranninn frétti fyrst af málinu í fjölmiðlum, líkt og flestir Norðmenn, og minntist fljótlega skringilegs atviks sem hann varð vitni að sama dag og Anne-Elisabeth hvarf.

Hann lýsir því í samtali við norska dagblaðið Verdens Gang, VG, að hann hafi séð bíl aka eftir afleggjara að húsi hjónanna á milli 8:30 og 10:30 að morgni 31. október. Nágranninn segir í samtali við VG að hann hafi verið á leiðinni í göngutúr og staðið fyrir utan dyrnar að fjölbýlishúsinu sem hann býr í þegar bílnum var ekið fram hjá.

„Það er ekki óeðlilegt í sjálfu sér en vanalega stoppar maður við endann á blokkinni þar sem vegurinn endar. En í þessu tilviki hélt bíllinn áfram yfir grasið og upp á malarveginn sem liggur að húsi Hagen-hjónanna.“

Nágranninn segist halda að bíllinn hafi líklega verið silfurlitaður jepplingur. Hann segist ekki hafa séð hversu margir voru í bílnum en telur að hann hafi verið á norskum númerum.

Lögreglustjórinn Tommy Brøske segir í samtali við VG að frásögn nágrannans sé afar áhugaverð. Nágranninn segist þó þegar hafa komið ábendingunni til lögreglu.

Nú þegar vika er liðin frá fyrstu fregnum af mannráninu hefur lögreglu borist yfir 800 ábendingar í tengslum við málið. Gefið hefur verið út að síðast hafi heyrst til Anne-Elisabeth þegar hún ræddi við fjölskyldumeðlim í síma klukkan 9:14 að morgni 31. október. Lögregla telur að Anne-Elisabeth hafi verið numin á brott einhvern tímann á milli 9:15 og 13:30, þegar Tom Hagen sneri heim úr vinnu.


Tengdar fréttir

Skila­­boð mann­ræningjanna á bjagaðri norsku

Skilaboðin sem mannræningjarnir skildu eftir heima hjá þeim Tom Hagen og konu hans Anne-Elisabeth Falkevik Hagen þegar Anne-Elisabeth var rænt voru á bjagaðri norsku, einhvers konar blöndu af norsku, austur-evrópsku tungumáli eða Google-þýðingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.