Erlent

Afgönsk, á sextugsaldri og tengist börnunum fjölskylduböndum

Kristín Ólafsdóttir skrifar

Afgönsk kona á sextugsaldri er í haldi lögreglu í Árósum í tengslum við mál tveggja smábarna sem fundust yfirgefin í borginni á laugardag. Áður hafði verið greint frá því að einn væri í haldi lögreglu vegna málsins en ekki höfðu verið sögð frekari deili á viðkomandi. Konan er tengd börnunum fjölskylduböndum en er ekki móðir þeirra.

Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglu og barnaverndaryfirvalda sem haldinn var í Árósum síðdegis í dag.

Vegfarendur gengu fram á börnin tvö, tveggja ára dreng og ársgamla stúlku, yfirgefin á gangstétt í miðborg Árósa. Ekki hefur tekist að bera kennsl á börnin eða hafa uppi á foreldrum þeirra. Lögreglu grunar að börnin hafi komið til Danmerkur í fylgd fólks sem dvelur, eða hefur dvalið, ólöglega í landinu.

Komið hefur fram að lögregla leitaði á nokkrum heimilum á Austur-Jótlandi í tengslum við rannsókn málsins í gærkvöldi. Þá hafði einnig verið gefið út að ein manneskja væri í haldi lögreglu í tengslum við málið og að tvær til viðbótar hefðu verið handteknar. Þeim síðarnefndu var þó sleppt úr haldi.

Börnin eru systkini

Lögregla gaf það svo út á Twitter-reikningi sínum í dag að manneskjan í haldi lögreglu væri 54 ára kona. Hún yrði leidd fyrir dómara í Árósum klukkan þrjú að dönskum tíma, eða klukkan tvö að íslenskum tíma.

Frekar var greint frá stöðu konunnar á blaðamannafundinum í dag. Þar kom fram að konan væri afgönsk og sökuð um brot á barnaverndarlögum. Henni er gefið að sök að hafa vanrækt og yfirgefið börnin. Verði konan sakfelld gæti hún átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi. Hún neitar nokkurri aðild að málinu.

Þá staðfesti lögregla að konan væri tengd börnunum fjölskylduböndum. Ekki hefur verið gefið upp hvernig hún er skyld þeim en hún er þó ekki móðir þeirra.  

Lögregla staðfesti jafnframt að börnin væru systkini en það hafði ekki fengist staðfest. Þá kom fram að börnunum heilsaðist vel en þau eru enn í umsjá barnaverndaryfirvalda.


Tengdar fréttir

Lýst eftir for­eldrum yfir­gefinna barna í Dan­mörku

Lögreglan á Austur-Jótlandi hafa enn ekki fundið foreldra eða aðra ættingja tveggja ungra barna sem fundust í gær í götunni Park Allé í miðborg Árósa. Lögreglan birti í dag myndir af börnunum, eins árs gamalli stelpu og tveggja og hálfs árs gömlum stráki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×