Enski boltinn

Mourinho segir ekkert félag í Evrópu komast nálægt Tottenham í aðstöðumálum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Glaður
Glaður vísir/getty
Portúgalinn Jose Mourinho kveðst aldrei hafa séð jafn góða aðstöðu og hans nýja félag, Tottenham, hefur upp á að bjóða.

Mourinho hefur verið afar jákvæður í samskiptum við fjölmiðla síðan hann var ráðinn til félagsins á miðvikudagsmorgun og í fyrsta viðtali sínu sem stjóri Tottenham fór hann fögrum orðum um nýjan leikvang félagsins og sagði æfingaaðstöðuna í algjörum sérflokki í evrópskum fótbolta.

„Ég tel að þú sért of hógvær þegar þú talar um frábæran leikvang, alltof hógvær. Þú verður að segja að þetta sé besti leikvangur heims. Það er raunveruleikinn,“ segir Mourinho og heldur áfram.

„Æfingasvæðið er engu líkt. Þú getur mögulega borið það saman við það besta sem þú sérð í ameríska fótboltanum en það er í öðrum gæðaflokki en allt annað í Evrópu.“

„Ég hef verið á bestu stöðunum en það er ekki samanburðarhæft við þetta og það sama gildir um leikvanginn. Þetta er eitthvað sem ætti að gera okkur öll mjög stolt. Við búum við algjörlega ótrúlega aðstöðu,“ segir Mourinho.

Mourinho ætti að hafa þokkalegt vit á því sem hann talar um enda hefur hann starfað fyrir mörg af stærstu íþróttafélögum heims í Chelsea, Inter Milan, Real Madrid og Manchester United.

Fyrsti leikur Tottenahm undir stjórn Mourinho er á morgun þegar liðið sækir West Ham heim í Lundúnarslag.


Tengdar fréttir

Á að setja bikara í tóma bikarskápa

Tottenham kom mörgum á óvart þegar félagið rak Mauricio Pochettino og réð Jose Mourinho. Liðið hefur fengið 24 stig í síðustu 25 leikjum. Liðið spilar á nýjum velli og er með leikmenn í heimsklassa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×