Erlent

Leysa upp mót­mæli á landa­mærum Frakk­lands og Spánar

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmælendur höfðu meðal annars komið fyrir steypuklumpum og sviði þar sem tónleikar voru haldnir.
Mótmælendur höfðu meðal annars komið fyrir steypuklumpum og sviði þar sem tónleikar voru haldnir. epa
Frönsk óeirðalögregla beitti meðal annars piparúða til að leysa upp mótmæli á landamærum Frakklands og Spánar eftir að katalónskir aðskilnaðarsinnar höfðu lokað vegum til Frakklands í um sólarhring.

Reuters segir frá því að franska lögreglan hafi rutt mótmælendum og ýmsu lauslegu úr vegi sem notað hafi verið til að trufla umferð á AP-7 þjóðveginum, við landamærabæinn La Jonquera. Var búið að loka fyrir umferð í báðar áttir.

Mótmælendur höfðu þar komið fyrir steypuklumpum og sviði þar sem tónleikar voru haldnir.

Mikil mótmæli hafa verið í Katalóníu síðustu vikurnar eftir að nokkrir leiðtogar aðskilnaðarsinna fengu þunga fangelsisdóma í Hæstarétti Spánar vegna aðkomu sinnar að skipulagningu þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2017 og þeirrar sjálfstæðisyfirslýsingar katalónska héraðsþingsins sem fylgdi í kjölfarið.

Aðspurður um hvað lögregla í Katalóníu myndi gera varðandi mótmælendur sem franska lögreglan vísaði aftur yfir landamærin, sagði Quim Torra, forseti héraðsþings Katalóníu, að engin ástæða væri til að ákæra fólkið. Mikilvægast væri að sjá til þess að enginn slasist í aðgerðum lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×