Erlent

Eldsprengjur og táragas við tækniháskólann

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Lögregla kínverska sjálfsstjórnarsvæðisins Hong Kong gerði í dag áhlaup á mótmælendur sem reyndu að draga athygli lögregluþjóna frá háskóla í borginni. Þar hafa mótmælendur hreiðrað um sig og setið fastir undanfarna daga.

Táragasi og eldsprengjum var kastað á víxl við Hong Kong tækniháskólann og hefur aldrei verið jafnmikil harka í þessum tæplega hálfs árs löngu mótmælum. Lögregla umkringdi skólann á sunnudag með það markmið að handtaka mótmælendur sem höfðu byrgt sig inni í byggingunni. Um hundrað mótmælendur reyndu að flýja skólann í dag en voru flestir handteknir.

Geng Shuang, upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins, var harðorður á blaðamannafundi í dag. „Það sem er að gerast í Hong Kong flokkast ekki lengur til friðsamlegra mótmæla heldur ofbeldisfullra aðgerða öfgamanna gegn almennum borgurum. “

Hann sagði aukinheldur að mótmælendur stefndu öryggi borgara í hættu en lögregla hafi unnið að því að verja almenna borgara og eigur þeirra. Mikilvægt sé að koma á reglu á svæðinu á ný.

Ástandið í Hong Kong hefur vakið heimsathygli. Þýsk stjórnvöld segjast fylgjast vel með. Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar sagði Þjóðverja hveta bæði lögreglu og mótmælendur til þess að sýna stillingu og mæta til viðræðna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.