Erlent

Myndbönd varpa ljósi á stefnumótið í aðdraganda morðsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi sem sýnt var í dómsal í gær. Hér má sjá hinn grunaða og Millane í lyftu á leiðinni upp í íbúð þess fyrrnefnda.
Skjáskot úr myndbandi sem sýnt var í dómsal í gær. Hér má sjá hinn grunaða og Millane í lyftu á leiðinni upp í íbúð þess fyrrnefnda. Skjáskot/Twitter
Nýbirtar upptökur úr öryggismyndavélum sýna síðustu klukkustundirnar í lífi breska bakpokaferðalangsins Grace Millane. Myndböndin varpa ljósi á samskipti hennar og mannsins, sem grunaður er um að hafa myrt hana, og þannig aðdraganda morðsins í byrjun desember í fyrra.

Sjá einnig: Skildi líkið eftir í ferðatösku og fór á annað Tinder-stefnumót

Millane, sem var 22 ára, hafði verið á ferð ein síns liðs um Nýja-Sjáland í tvær vikur er hún týndist þann 1. desember síðastliðinn. Lík hennar fannst viku síðar.

27 ára karlmaður, sem Millane kynntist á stefnumótaforritinu Tinder, er ákærður fyrir morðið á henni. Hann neitar sök.

Kossaflens og lyftuferð

Myndefnið var sýnt í réttarsal í nýsjálensku borginni Auckland í gær, þar sem aðalmeðferð í málinu gegn manninum fer fram. Upptökurnar eru frá börum sem Millane og hinn ákærði fóru á kvöldið sem hún var myrt, svo og úr öryggismyndavélum íbúðahótels þar sem maðurinn bjó.

Upptökurnar spanna þannig síðustu klukkutímana fyrir morðið. Í þeim sjást Millane og maðurinn hittast á stefnumóti eftir að hafa spjallað saman á Tinder. Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur á grundvelli nýsjálenskra laga og andlit hans er afmáð á upptökunum.

Grace Millane var nýútskrifuð úr háskóla og var á ferðalagi um heiminn þegar hún var myrt.
Myndböndin fylgja Millane og hinum ákærða þar sem þau flakka á milli bara og virðast skemmta sér vel. Á einum tímapunkti má sjá manninn kyssa Millane í tvígang. Þau sjást svo ganga hönd í hönd út af staðnum og heim til mannsins, sem bjó skammt frá. Að endingu má sjá þau fara inn í lyftu í anddyri hússins og stíga út úr henni á þriðju hæð, þar sem íbúð mannsins var.

Simon Atkinson, fréttaritari BBC í Ástralíu, birti hluta úr myndbandsupptökunum á Twitter í gærmorgun. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Þá voru skilaboð sem Millane sendi vinkonu sinni á meðan á stefnumótinu stóð einnig birt í dómsal. Hún sagði stefnumótið ganga vel og að hún og ákærði næðu vel saman. Þá sagðist hún á góðri leið með að verða mjög drukkin.

Saksóknari heldur því fram að maðurinn hafi kyrkt Millane í íbúðinni eftir stefnumótið. Maðurinn segir þó að andlát Millane hafi verið slys. Þau hefðu stundað kynlíf í íbúð hans og hann hert að hálsi hennar til að ná fram „unaði“, með fyrrgreindum afleiðingum.

Komið hefur fram að maðurinn hafi m.a. leitað að því á netinu hvernig best væri að „losa sig við lík“, eftir að hann á að hafa myrt Millane.

Daginn eftir fór maðurinn svo á Tinder-stefnumót með annarri konu. Lík Millane var þá í ferðatösku í íbúð hans. Hann er sakaður um að hafa grafið líkið í ferðatöskunni rétt fyrir utan borgarmörk Auckland.


Tengdar fréttir

„Dóttir ykkar hefði átt að vera örugg hér“

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, þurfti að halda aftur af tárunum þegar hún bað fjölskyldu Grace Millane afsökunar á því að hún hefði verið myrt á bakpokaferðalagi sínu um landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×