Erlent

„Dóttir ykkar hefði átt að vera örugg hér“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gracie Millane var nýútskrifuð úr háskóla og var á ferðalagi um heiminn.
Gracie Millane var nýútskrifuð úr háskóla og var á ferðalagi um heiminn.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, þurfti að halda aftur af tárunum þegar hún bað fjölskyldu Grace Millane afsökunar á því að hún hefði verið myrt á bakpokaferðalagi sínu um landið.26 ára karlmaður hefur verið ákærður fyrir morðið á Millane en lík hennar fannst um helgina í kjarrlendi í vesturhluta Auckland. Millane var 22 ára Breti og hafði verið á ferðalagi um Nýja-Sjáland í um tvær vikur þegar hún hvarf.Ardern sagði að þjóðin öll skammaðist sín vegna málsins.„Það er gríðarleg sorg og skömm vegna þess að þetta gerðist í landinu okkar, á stað þar sem gestrisni er okkar helsta stolt, okkar manaakitanga,“ sagði Ardern en manaakitanga er Maori-orðið fyrir að bjóða aðra velkomna.„Mig langar því að biðja fjölskyldu Grace afsökunar fyrir hönd nýsjálensku þjóðarinnar. Dóttir ykkar hefði átt að vera örugg hér en hún var það ekki og það þykir mér miður.“Nafn hins ákærða ekki gefið upp að svo stöddu

Maðurinn sem ákærður hefur verið fyrir morðið kom fyrir dómara í morgun. Hann fór fram á að nafnið hans yrði ekki gert opinbert en dómarinn hafnaði því. Verjandi mannsins áfrýjaði þeim úrskurði hins vegar strax og því verður nafn hans ekki gefið upp að svo stöddu.Dómarinn í málinu ávarpaði fjölskyldu Millane beint þegar maðurinn kom fyrir dóminn.„Við vonumst eftir því að réttlætið fyrir Grace verði sanngjarnt, komi fljótt og veiti ykkur að endingu einhvern frið. Ég veit ekki hvað ég get sagt við ykkur á þessari stundu, þið hljótið að vera full örvæntingar vegna sorgarinnar,“ sagði dómarinn Evangelos Thomas.Samkvæmt dómsskjölunum býr hinn ákærði í Auckland og er hann sakaður um að hafa myrt Millane einhvern tímann á milli 1. og 2. desember.Yfirvöld hafa sagt að Millane og maðurinn hafi ekki þekkst. Þá hafa yfirvöld neitað að staðfesta fregnir af því að þau hafi hist í gegnum stefnumótaforrit.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.