Enski boltinn

Klopp virðist vera með smá áhyggjur af því að leikmenn Liverpool brenni út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Firmino er í stóru hlutverki hjá Liverpool og þarf líka oft að ferðast il Suður-Ameríku í landsleikjahléum.
Roberto Firmino er í stóru hlutverki hjá Liverpool og þarf líka oft að ferðast il Suður-Ameríku í landsleikjahléum. Getty/Catherine Ivill
Það hefur verið mjög mikið að gera hjá Liverpool-liðinu til þessa á tímabilinu enda er liðið inni í öllum keppnum.

Liverpool byrjaði á leiknum um Samfélagsskjöldinn áður en enska úrvalsdeildin byrjaði og spilaði einnig um Ofurbikar UEFA í upphafi leiktíðar. Svo tók við enska úrvalsdeildin og Meistaradeildin og flestir leikmanna liðsins hafa verið uppteknir með landsliðum sínum.

Liverpool liðið fer síðan til Katar til að taka þátt í heimsmeistarakeppni félagsliða áður en kemur að jólatörninni í desember.

Liverpool mætir Genk frá Belgíu í Meistaradeildinni í kvöld og verður helst að vinna ætli liðið ekki að lenda í basli með að komast upp úr riðlinum.

Tap í fyrsta útileiknum á móti Napoli hefur sett meiri pressu á leik kvöldsins og þetta er líka fyrsti leikur liðsins eftir að það tapaði sínum fyrstu stigum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.





Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ræddi einmitt álagið á leikmenn sína á blaðamannafundi fyrir Genk-leikinn eins og sjá má hér fyrir ofan.

„Sumir leikmanna minna hafa þegar spilað sautján leiki á tímabilinu ef við tökum landsleikina með. Það er hálft tímabil í Þýskalandi,“ sagði Jürgen Klopp.

Öll undankeppni EM 2020 fór fram á árinu 2019 í stað þess að taka tvö tímabil eins og áður. Það hefur aukið fjölda keppnislandsleikja og um leið álagið á bestu leikmönnum liðanna.

Leikur Genk og Liverpool verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsendingin klukkan 18.50.      

Meistaradeildarmessan verður á Stöð 2 Sport frá klukkan 18.15 en þar verður fylgst með öllum leikjum kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×