Íslenski boltinn

Valur hefur viðræður við annan þjálfara

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur Jóhannesson á hliðarlínunni fyrr í sumar.
Ólafur Jóhannesson á hliðarlínunni fyrr í sumar. vísir/daníel

Valur hefur hafið viðræður við annan þjálfara um að taka við liðinu af Ólafi Jóhannessyni en Fótbolti.net greinir frá þessu í morgun.

Valur er í 9. sæti Pepsi Max-deildarinnar en Ólafur hefur stýrt liðinu síðustu fimm ár með mögnuðum árangri. Hann hefur unnið deildina tvívegis og bikarinn jafn oft.

Edvard Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, tjáði sig um orðróminn í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Við erum að skoða málin í víðu samhengi, það er of snemmt að segja til um í dag hvað verður. Við munum líklega vera með skýrari svör síðar í vikunni," sagði Börkur við Fótbolta.net.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Ólafs hjá Valsliðinu en Heimir Guðjónsson og Ágúst Gylfason hafa verið þrálátlega orðaðir við starfið, þá sér í lagi Heimir.

Heimir greindi frá því viðtali við Morgunblaðið á dögunum að hann gæti komið heim en hann varð bikarmeistari með HB í Færeyjum um helgina.

Ágúst er enn við störf í Kópavoginum en sagði eftir leik ÍBV og Breiðabliks í gær að hann væri búinn að setjast niður með stjórn Blika. Þó væri óvíst hvað framhaldið yrði.

Valur á einn leik eftir í Pepsi Max-deildinni en liðið mætir HK um komandi helgi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.