Erlent

Tíu hand­teknir vegna dróna­flugs við He­at­hrow

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla er með mikinn viðbúnað í kringum.
Lögregla er með mikinn viðbúnað í kringum. Getty
Loftslagsaðgerðasinnar í Englandi segja að þeim hafi í morgun tekist að fljúga dróna inn á bannsvæði í kringum Heathrow-flugvöll í London í þeim tilgangi að trufla flugsamgöngur. Lögregla hefur nú handtekið tíu manns vegna málsins.

Það er hópur sem kallar sig Heathrow Pause, sem er klofningshópur úr Extinction Rebellion, sem stendur fyrir aðgerðunum. Er áætlun þeirra að fljúga drónum yfir flugvöllinn í dag og alla helgina til að koma í veg fyrir að flugvélar taki á loft.

Markmið hópsins er að koma í veg fyrir stækkun Heathrow-flugvallar og að stjórnvöld dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Samkvæmt reglum flugvallarins taka flugvélar ekki á loft sjáist dróni á flugi innan fimm kílómetra radíus frá vellinum.

Í færslu á Twitter segir Heathrow Pause að tilraun hafi verið gerð til að fljúga þremur drónum inn á bannsvæðið og hafi tekist að ná einum þeirra inn.

Lögregla er með mikinn viðbúnað í kringum flugvöllinn og hefur varað aðgerðasinnana við að þeir kunni að að eiga yfir höfði sér lífstíðardóm, stofni þeir lífi fólks í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×