Erlent

Trudeau man ekki hversu oft hann hefur litað andlit sitt svart

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur þurft að svara fyrir hneykslismál undanfarið.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur þurft að svara fyrir hneykslismál undanfarið. vísir/getty
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, treystir sér ekki til að segja til um hversu oft hann hefur litað andlit sitt svart. Hann geti ekki munað það enda hafi hann ekki munað eftir þeim þremur tilvikum sem fjölmiðlar hafa fjallað um í gær og í dag.  Tvær myndir og eitt myndband hafa birst í fjölmiðlum af forsætisráðherranum þar sem hann hefur litað andlitið svart. Myndbandið er frá tíunda áratugnum þegar Trudeau var á síðunglingsárum eða rúmlega tvítugur. Önnur myndin er frá 2001 og hin frá því hann var í gagnfræðaskóla.Trudeau baðst afsökunar á myndinni frá 2001 í nótt og í dag baðst hann aftur afsökunar eftir að hin myndin og myndbandið voru birt.Málið þykir vandræðalegt fyrir Trudeau enda hefur hann sem stjórnmálamaður komið fram sem sá sem berst fyrir félagslegu réttlæti og fjölbreytileika í samfélaginu. Það þykir hins vegar rasískt þegar hvítt fólk málar andlitið á sér svart.Trudeau ávarpaði fjölmiðla í Winnipeg í dag.„Að mála andlitið á sér svart, sama hvert samhengið er eða aðstæðurnar, er alltaf óásættanlegt vegna þeirrar rasísku sögu sem tengist slíkum gjörningi. Ég hefði átt að skilja þetta þá og ég hefði aldrei átt að gera þetta,“ sagði Trudeau.Bætti hann við að hann hefði brugðist mörgum og bað um fyrirgefningu. Sagði forsætisráðherrann að það að hann hefði ekki áttað sig á því hversu særandi þetta væri fyrir þá sem búa við mismunun á hverjum væri vegna mikillar forréttindablindu hans.Farandsöngvarar í Norður-Ameríku fóru að sverta andlit sín til að líkjast blökkumönnum á 19. öld og nutu sýningar þeirra mikilla vinsælda á meðal hvítra. Sýningarnar gáfu niðrandi mynd af blökkumönnum og eru taldar hafa fest í sess móðgandi og rasískar staðalmyndir af þeim.Uppákoman nú er ekki eina hneykslismálið sem hefur plagað Trudeau í aðdraganda þingkosninga í Kanada sem fara fram þann 21. október.Hefur hann verið sakaður um að hafa skipt sér óeðlilega af spillingarrannsókn á stóru verktakafyrirtæki. Dómsmálaráðherra í ríkisstjórn hans sagði meðal annars af sér í mótmælaskyni. Trudeau hefur því átt undir högg að sækja í skoðanakönnunum síðasta rúma árið.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.