Erlent

Stjórnarandstæðingur segir Trudeau vanhæfan vegna ljósmyndanna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Bandaríska tímaritið Time birti mynd af Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, seint í gær þar sem sjá mátti Kanadamanninn málaðan mun dekkri en hann er í raun, og í grímubúning. Myndin hefur vakið töluverða reiði í Kanada og þykir afar ósmekkleg, hreinlega fordómafull.

Trudeau baðst afsökunar í nótt og gekkst við því að hafa málað sig hörundsdökkan oftar. „Ég axla fulla ábyrgð á þessari ákvörðun minni. Ég hefði ekki átt að gera þetta, hefði átt að vita betur. Þetta var eitthvað sem ég taldi ekki rasískt þá en átta mig nú á því að þetta var fordómafullt. Mér þykir þetta afar leitt,“ sagði hann.

Stjórnarandstaðan í landinu er allt annað en sátt við forsætisráðherrann vegna málsins. Andrew Scheer, leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði þetta sýna fram á dómgreindarleysi Trudeaus og óheilindi. Hann væri því óhæfur forsætisráðherra. „Með því að farða sig hörundsdökkan gerir maður gys að öðrum á rasískan hátt. Þetta var alveg jafnfordómafullt árið 2001 og það er árið 2019.“

Fylgi flokka í Kanada

Rétt rúmur mánuður er nú í kosningar í Kanada. Ekki liggur fyrir hvaða áhrif hin umdeilda ljósmynd hefur á fylgi Frjálslynda flokks Trudeaus en fylgið hefur verið að mælast áþekkt því sem Íhaldsflokkurinn hefur. Samkvæmt könnun Nanos Research frá því í gær fengi Frjálslyndi flokkurinn 35 prósent atkvæða en fékk tæp 40% árið 2015.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.