Erlent

Segir Frakka ekki tilbúna að fresta útgöngu Breta að svo stöddu

Eiður Þór Árnason skrifar
Ummæli Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, flækja enn frekar stöðu Breta í Brexit-málinu.
Ummæli Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, flækja enn frekar stöðu Breta í Brexit-málinu. Getty/Chesnot
Frönsk stjórnvöld eru ekki tilbúin að fresta útgöngu Breta úr Evrópusambandinu eins og staðan er í dag, ef marka má ummæli Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, fyrr í dag.

Utanríkisráðherrann segir þetta vera afstöðu Frakka í ljósi þess að breskum stjórnvöldum hafi ekki tekist að sýna fram á að þau muni bera fram nýjar lausnir við samningaborðið til að leysa um Brexit hnútinn.

Að óbreyttu mun Bretland yfirgefa Evrópusambandið þann 31. október næstkomandi, hvort sem nýtt samkomulag næst eður ei.

„Þau segjast vilja bera fram aðrar lausnir til að tryggja útgönguna. Við höfum ekki séð þær, svo svarið er nei. Við munum ekki byrja upp á nýtt á þriggja mánaða fresti. Leyfum breska þinginu og breskum stjórnvöldum að segja okkur hver leiðin er framundan,“ sagði utanríkisráðherrann í samtali við frönsku sjónvarpsstöðina CNews.

Boris Johnson forsætisráðherra Breta er nú í erfiðri stöðu eftir að breska þingið kom á dögunum í veg fyrir samningslausa útgöngu í lok október. Eitt helsta kosningamál hins nýja forsætisráðherra var að Bretar færu úr sambandinu þann 31. október og hefur hann í kjölfar ákvörðunar þingsins reynt að boða til þingkosninga. Ekki náðist heldur stuðningur á breska þinginu fyrir þeirri tillögu.

Ljóst er að yfirlýsing franska utanríkisráðherrans flækir stöðuna enn frekar fyrir Boris Johnson, sem hefur ekki átt sjö dagana sæla í embætti. 


Tengdar fréttir

Stjórnarandstaðan hafnar nýjum kosningum

Flokkarnir sem mynda stjórnarandstöðuna í Bretlandi hafa sammælst um að hafna kröfu Boris Johnson, forsætisráðherra, um að haldnar verði þingkosningar fyrir leiðtogafund Evrópusambandsins í október, þegar Bretland á að ganga úr sambandinu.

Herkænska eða hrunadans Johnsons

Bresk stjórnmál eru í uppnámi og almenningur getur lítið gert annað en að fylgjast agndofa með. Líkt og í House of Cards er ráðabrugg að tjaldabaki og Boris Johnson horfir marga leiki fram í tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×