Erlent

Stjórnarandstaðan hafnar nýjum kosningum

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson virðist vera kominn út í horn.
Boris Johnson virðist vera kominn út í horn. AP/Alastair Grant

Flokkarnir sem mynda stjórnarandstöðuna í Bretlandi hafa sammælst um að hafna kröfu Boris Johnson, forsætisráðherra, um að haldnar verði þingkosningar fyrir leiðtogafund Evrópusambandsins í október, þegar Bretland á að ganga úr sambandinu. Þingmenn flokkanna munu því kjósa gegn tillögu Johnson eða sitja hjá þegar atkvæðagreiðslan fer fram á mánudaginn. Þar sem Íhaldsflokkurinn hefur misst meirihluta sinn eru því engar líkur á því að boðað verði til nýrra kosninga.

Verkamannaflokkurinn, Frjálslyndir demókratar, Skoski þjóðarflokkurinn og velski flokkurinn Plaid Cymru koma að samkomulaginu. Markmiðið er, samkvæmt BBC, að reyna að koma í veg fyrir að Bretland gangi úr ESB án samnings.

Samkvæmt The Times kemur eingöngu til greina að halda kosningar ef Johnson verði Bretum út um enn einn frestinn á Brexit. Forsætisráðherra sagði í gær að hann myndi frekar vilja „liggja dauður í skurði“ en sækja um frest til Brussel. Johnson verður þó líklegast þvingaður til þess að sækja um frest í dag en búist er við því að lávarðadeild þingsins samþykki lög þar að lútandi í dag.

Johnson, sem er nú staddur í Skotlandi, sagði í morgun að stjórnarandstaðan væri að gera mikil mistök. Hann sagðist undarlegt af stjórnarandstæðunni að „flýja undan“ kosningum.

„Ég veit ekki til þess að stjórnarandstaða hafa nokkurn tímann í sögu lýðræðisins, hafnað kosningum en það er þeirra val. Ég tel augljóst að þau treysti fólki ekki. Þau halda að þau fái ekki atkvæði og því neita þau að hafa kosningar,“ sagði Johnson.

Ian Blackford, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins á þingi, segir stjórnarandstöðuna ekki treysta Johnson til að ákveða kosningadag.
 


Tengdar fréttir

Frestun þingfunda í Bretlandi dæmd lögleg

Skoskur dómstóll segir þá ákvörðun Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, að fresta þingfundum í september og þar til skömmu áður en Bretland gengur úr Evrópusambandinu (Brexit) í lok október, vera lögmæta.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.